Skrýtin ber

Víða vaxa ber í Skagafirði. Uppskeran í ár var nokkuð misjöfn. Það fréttist til dæmis af systkinum sem tíndu 24 lítra af krækiberjum í Hjaltadal og voru snögg að því.

Valgeir Kárason býr á Sauðárkróki og skrifaði þetta á facebook:
Ekki séð jafn lítið af berjum hér við Sauðárkrók í mörg ár, forvitinn að vita hvað þetta hvíta er á bláberjunum?

Sérkennileg bláber (VK).

Fljótlega komu fram tilgátur um að sveppur hefði komist í berin og haft var samband við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sveppasérfræðing. Hún fékk berin send og rannsakaði þau. Hún staðfesti að um væri að ræða svepp:
Búin að skera í ljósa flekki/þykkildi á tveimur berjum og fékk töluvert af sveppþráðum þannig að um er að ræða svepp. Og út úr þessu flutu svo ákaflega grönn, hólklaga, glær og sléttveggja gró sem ekki voru með neina þverveggi.

Guðríður Gyða tók mynd í gegnum smásjá. Um myndina segir hún: Hér eru gró sem mældust um 8 x 2 µm ásamt sveppþráðum. Þetta er úr einum af þroskuðu blettunum og tekið gegnum 100x linsu en stærð má miða út frá 8 µm löngum gróum neðarlega á myndinni.

1 μm (1 míkrómetri) er 0,001 mm.

Smásjármynd. Þarna sjást bæði sveppþræðir og gró. (GGEy)

Einn af vinum Valgeirs á facebook hafði fundið svipuð ber í Siglufirði. Honum var brugðið: Svei mér þá, ég át nokkur svona um daginn. Ekki dauður og engin einkenni. Svo þau eru hugsanlega, ef til vill, líklegast, örugg að einhverju leyti til átu. Svona sirka. Guðríður Gyða tók þá fram að líklega væri sveppurinn hættulegri fyrir berin sjálf en þá sem borðuðu þau!

Skoðið myndirnar vel.

  • Sveppurinn hefur þroskast misvel í berjunum. Í hvaða berjum er þroskunin komin lengst og í hverjum styst?
  • Hvar ætli séu sveppþræðir á smásjármyndinni og hvar gró?