Gróður

Fjöldi tegunda háplantna (AZ).

Í Skagafirði er fjölbreyttar aðstæður og því sérstaklega fjölbreyttur gróður.  Á þessari mynd sést þetta svo ekki verður um villst. Þarna er landinu skipt upp í reiti, 10 km x 10 km, og þeir litaðir eftir því hversu margar tegundir plantna finnast þar.

Margt spilar inn í hvaða plöntur vaxa á tilteknum stað og má þar nefna: veður, landslag, snjóþyngsli, jarðveg, raka, nálægð við sjó, jarðhita og fleira.

Hrútaberjalyng í frjósamri brekku, tröllastakkur upp til fjalla og lambagras á mel (SH).

Víða eru snjóþyngsli á veturna í Skagafirði en snjóþyngstu láglendissvæði landsins eru í Fljótum og Almenningum. Í svokölluðum snjódældum vaxa plöntur sem nauðsynlega þurfa skjól af snjó yfir veturinn. Þar sem er mikill snjór er lítil vetrarbeit. Dæmi um snjódældarplöntur: aðalbláberjalyng og grámulla.

Í Skagafirði eru mörg fjöll, einkum eru þau há, mikil og þétt á Tröllaskaga. Upp á fjöllum vaxa fjallaplöntur og á Tröllaskaga er fjölbreyttur háfjallagróður. Dæmi: fjallabláklukka.

Sumar plöntutegundir sem aðallega vaxa í hlýrra veðri sunnan til á landinu vaxa í Skagafirði þar sem hiti er í jörðu. Dæmi: selgresi.

Hraun í Fljótum (SH).

Á bænum Hraunum í Fljótum er sérstakt og fjölbreytt landslag. Fjölbreytni gróðurs er hvergi meiri í Skagafirði en einmitt þar og þó víðar væri leitað. Þar eru há fjöll en líka láglendi. Þar hafa fallið skriður úr fjöllum og eru þær víða stórgrýttar, þar eru dældir og mikið um tjarnir. Þar er stutt til sjávar. Á Hraunum í Fljótum vaxa margar sjaldgæfar plöntur. Dæmi: stóriburkni, álftalaukur og sifjarsóley.

Í Skagafirði eru taldar vaxa 355 tegundir háplantna af 465 tegundum sem vaxa á landinu. (Mosar teljast ekki til háplantna).

Gróður í Skagafirði

Skógar 

Birki í Fögruhlíð í Austurdal (SH).

Lítið er um náttúrulega birkiskóga í Skagafirði en víða er ræktaður skógur með fjölbreyttum trjátegundum.

Í Austurdal vex þó birki á nokkrum stöðum og víst er að þar hefur áður fyrr verið talsverður skógur. Austurdalur er langt inni í landi og í þó nokkurri hæð yfir sjávarmáli. Birkið þar hefur aðlagast stuttu og þurru sumri. Laufblöðin eru hærðari en gengur og gerist, en það dregur úr útgufun og viðheldur hita. Í Stórahvammi í Austurdal, er hæsti vaxtarstaður birkis á Íslandi.

Aðra náttúrulega skóga í Skagafirði má finna: í Fljótum, í Hrollleifsdal og við Ljótsstaði á Höfðaströnd.

Útfrá Brimnesi og út undir Kolkuós voru Brimnesskógar til forna. Frá þeim er sagt í Landnámu, en hryssan Fluga týndist í skóginum! Land þetta varð svo alveg skóglaust en nú er verið að rækta þarna Brimnesskóga á nýjan leik. Notað er fræ frá trjám í Skagafirði.

Skógrækt merkt inn á kort. Skoðið!

Lesa meira um skóga 

  • Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun
  • Ragnhildur Freysteinsdóttir. 2006. Yrkjuvefurinn. Námsgagnastofnun og Yrkja
  • Sveinbjörn M. Njálsson. 2004. Græðlingur (staðfærsla og viðbótarefni). Námsgagnastofnun. 
  • Sveinbjörn M. Njálsson. 1992. Ég greini tré – greiningarlykill um tré og runna. Námsgagnastofnun. 

>>> DÝR >>>