Rof og veðrun

Í eldgosum hlaðast upp berglög. Síðan veðrast bergið og rofnar á yfirborði jarðar. Veðrun merkir niðurbrot og grotnun bergs á staðnum en rof þýðir flutningur bergs, bergmylsnu og uppleystra efna.

Einn eða tveir á Kili (SH).

Meðal þess sem veldur veðrun:

 • Frost
  Þegar vatn frýs tekur það meira pláss en áður. Vatn sem frýs í holrúmi í bergi þrýstir af miklu afli á bergið og getur klofið það. Frostveðrun er algeng á Íslandi. Grjót í skriðum fjalla hefur í langflestum tilfellum losnað úr bergi við frostveðrun.
 • Lífverur
  Lífverur geta valdið veðrun. Rætur sumra plantna teygja sig inn í þröngar skorur í bergi og geta síðan klofið það með frekari vexti. Traðk dýra og manna getur molað berg. Fléttur leysa upp berg með koltvísýringi sem þær framleiða.
 • Uppleyst efni
  Berg getur grotnað niður vegna uppleystra efna sem eru í vatni, t.d. grunnvatni og regni.

Rof getur orðið með hjálp vinds, vatns, jökla eða þyngdaraflsins. Þyngdaraflið lætur steinvölur, eða heilu björgin rúlla af stað undan brekku. Steinvölur mást við flutninginn og sömuleiðis það berg sem verður á vegi þeirra. Rof veldur þannig enn meiri veðrun.

Veðrun og rof

 • Steinninn á myndinni hér að ofan, sem er meira en mannhæðar hár, hefur bæði rofnað og veðrast. Hvernig er líklegt að það hafi gerst?
 • Horfið í kringum ykkur og reynið að sjá fyrir ykkur veðrun og rof.
 • Hugsið um hvernig stór skriðjökull getur stuðlað að veðrun og einnig rofi.
 • [[]] Takið ljósmynd í umhverfi ykkar sem á að sýna veðrun. Útskýrið hvað hefur líklega valdið veðruninni.
 • [[]] Takið ljósmynd í umhverfinu sem á að sýna rof. Útskýrið hvaða kraftar hafa líklega valdið rofinu. 

>>> SKRIÐUR >>>