Vatnakerfi og votlendi

Til votlendis teljast t.d. ár, lækir, tjarnir, stöðuvötn, fjölbreyttar mýrar auk fjara og grunnsævis. Fjölbreytt votlendi er í Skagafirði. Vötn og ár sem hríslast um á leið sinni til sjávar eru áberandi.

arvotnm
Ár og vötn í Skagafirði (HÞ).

Jökulár renna undan jöklum og bera með sér aur og leir. Í ljósi þess hve mikið er um smájökla á Tröllaskaga eru margar jökulár á svæðinu. Þær eru þó sumar hverjar ekki miklar og síðan blandast í þær bergvatn.

Austari-Jökulsá og Vestari-Jökulsá  koma undan Hofsjökli. Þær renna um Austurdal og Vesturdal og sameinast svo í Héraðsvötnum. Í dölunum hafa þær grafið sig ofan í bergið og myndað gljúfur. Margar minni ár renna í Jökulsárnar og Héraðsvötnin á leið þeirra. Héraðsvötn eru langstærsta vatnsfallið í Skagafirði og skila þau vatni af 65% þess svæðis sem tilheyrir Skagafirði.

Við ósa Vestari-Héraðsvatna. Takið eftir hvernig framburður árinnar berst út í sjó. (JÓH).

Framburður þessara stóru áa er mikill og þær hafa í gegnum tíðina myndað víðáttumikið og frjósamt undirlendi, meginhérað Skagafjarðar. Víða er það votlent og búsvæði fjölda fugla. Þar eru stærstu flæðimýrar landsins og þó víðar væri leitað. Segja má að Héraðsvötnin séu hjartað eða öllu heldur æðakerfið í skagfirskri náttúru. Lesa nánar um Héraðsvötn og Jökulsárnar.

Þéttur berggrunnur

Berggrunnurinn í Skagafirði er víðast svo þéttur að hann gleypir ekki vatnið, heldur rennur það eftir yfirborðinu. Svokallaðar dragár og dragavötn eru ríkjandi.

Þar sem berg er gljúpt, líkt og svampur, eru lindár og lindavötn. Vatnið kemur þar fram í uppsprettum. Nokkuð er um lindár í Skagafirði en óalgengt er að þær renni til sjávar án blöndunar við jökul- eða dragár.

Dragá verður til þegar vætlandi yfirborðsvatn safnast í sameiginlegan farveg.
Lindá fær vatn sitt úr uppsprettum.
Lindár og dragár teljast til bergvatnsáa. Í þeim er tært vatn; rigningavatn eða grunnvatn.
Jökulá er á með leysingavatni jökla.

Sama áin, sami lækurinn?
Takið nokkrar myndir af á eða læk frá sama sjónarhorni og veljið ólíkar aðstæður í umhverfinu og veðri. Hugsið um lífverurnar ofan í vatninu. 

[[]] Áin okkar
(Svipað verkefni um ár og lífríkið.) 

Hvaða á rennur næst heimili ykkar? Aflið upplýsinga um hana:

  • Hvað heitir áin?
  • Hvers konar á er þetta (dragá, lindá, jökulá eða einhvers konar blanda)?
  • Hvar eru upptök hennar og hvaða leið fer hún til sjávar? Skoðið þetta á korti (map.is eða kortasja.lmi.is). 
  • Sameinast hún öðrum ám?
  • Lifir fiskur í ánni og þá hvaða tegund/ir?

>>> Meira um LINDÁR OG DRAGÁR >>>