Vindar

Algengustu vindáttirnar í Skagafirði eru norðanátt og sunnanátt. Norðanátt kemur úr norðri og sunnanátt úr suðri! Suðlægir vindar eru jafnan hlýir, en norðanvindar kaldir. Vindáttir í þröngum dölum eru mjög staðbundnar og liggja þá algengustu vindáttir út og inn dalina. Vindhraðinn er mestur upp til fjalla og út til stranda. Hafgolu gætir á vorin og sumrin. Hnúkaþeyr er algengur í Skagafirði, sérstaklega á haustin.

hafgola-copy
Í hafgolu leita vindar af hafi inn til landsins. Það gerist þegar yfirborð lands verður heitara en yfirborð sjávar. Loftið rís þá upp yfir landinu og streymir út á haf. Síðan fellur það yfir sjónum þegar það kólnar, og blæs svo aftur inn á land sem svalt loft. (Wikimedia Commons)
fjallurkoma
Hnúkaþeyr er heiti á hlýjum og þurrum vindum sem koma yfir fjöll og hálendi. Hitinn myndast þegar rakt loft stígur upp yfir fjöll. Loftið kólnar, ský myndast og oft úrkoma. Þegar loftið er komið yfir fjöllin fellur það og hlýnar. Þar verður vindurinn oft stífur. (ÖÓ)

Mesti vindur sem mælst hefur í Skagafirði er 36 m/s, 17. febrúar 1981 á Bergstöðum. Mesta vindhviðan sem mælst hefur í Skagafirði er 47,1 m/s og var það á Nautabúi 22. mars 2007.

>>> STAÐHÆTTIR OG VEÐUR >>>