Merki ísaldarjökulsins

Í Skagafirði sjást víða merki ísaldarjökulsins.

Þegar jökull nær ákveðinni þykkt verður hann seigfljótandi, eins og þykkur grautur. Hann skríður af stað. Skríðandi jöklarnir hrífa með sér möl og grjót. Það rúllar líka út á þá úr nærliggjandi fjöllum. Grjótinu sem er undir jöklinum má líkja við korn í sandpappír. Eftir því sem jökullinn er þykkari og stærri verður hann kröftugri við að grafa og pússa. Á grjótklöppum má víða sjá jökulrákir eftir ferðir jökla.

Sums staðar má líka sjá hvalbök, en það eru jökulmáðar klappir sem eru þannig að hliðin sem snéri á móti skriðstefnu jökulsins er fremur slétt og aflíðandi. Þar mæddi þungi jökulsins mest á. Hin hliðin, sem er í vari, er stöllótt og hrjúf, enda hefur jökullinn náð að hrifsa hluta úr berginu þeim megin. Lögunin minnir á hvalbök!

Hvalbak (Wikimedia Commons).
Grásteinn við bæinn Brennigerði er tilkomumikið hvalbak (SH).

Jöklar bera með sér og skilja eftir sig möl og grjót. Ef skriðjökull er hvorki að stækka né hopa sleppir hann öllum framburðinum á sama stað. Þar myndast því miklir garðar sem nefndir eru jökulgarðar. Í Skagafirði eru ekki aðgengilegir skýrir jökulgarðar, enda er talið að jökullinn hafi náð út í sjó og síðan hopað hratt.

Skriðjöklar og framburður
Skoðið hreyfimynd sem sýnir stöðugan skriðjökul (Stationary), hopandi skriðjökul (Glacial Retreat) og skriðjökul sem stækkar (Glacial Advance).

Grettistak við fjallið Elliða (SH).

Stór stök björg sem jökull hefur borið með sér sem daga svo uppi þegar jökull hopar eru nefnd grettistök. Það sem við sjáum á myndinni virðist ekki hafa mjög trausta undirstöðu!

Vatn rennur undir jöklum í farvegum og ber með sér framburð eins og hver önnur á. Straumurinn getur verið mikill undir jöklinum en þegar áin kemur undan honum breiðir hún úr sér og straumurinn minnkar. Þar sest því framburður árinnar til. Með hopandi jökli færist staðurinn til þar sem áin setur af sér framburðinn. Smám saman verður þá til malarás, sem getur orðið býsna langur. Í Sæmundarhlíð eru tilkomumiklir malarásar.

Riðið eftir malarási við Skarðsá í Sæmundarhlíð (SH).
Malarásar í Sæmundarhlíð. Hæðirnar fremst á myndinni eru malarásar. (SH)
Jökulker, nálægt bænum Fjalli syðst í Sæmundarhlíð (lmi.is).

Stundum verða stórir ísjakar viðskila við hopandi jökul eða berast fram í jökulhlaupi. Þeir grafast í áraura og hyljast sandi og aur en svo bráðnar ísinn smám saman og þá myndast dæld í jörðina full af vatni. Svona fyrirbæri heitir jökulker. Á loftmyndinni má sjá myndarlegt jökulker sem er enn fullt af vatni. Þarna eru líka mörg minni jökulker í kring sem gera landslagið dældótt.

Ísaldarjöklar áttu sinn þátt í að grafa dali í landslagið. Sums staðar má sjá minni dali útfrá stærri dal. Þar voru að verki þverjöklar. Dalirnir, sem þverjöklarnir móta, eru kallaðir hengidalir, enda er eins og þeir hangi uppi í fjallshlíðunum!

a: Jöklar skafa dali. b: Jöklar horfnir en eftir stendur jökulsorfið landslag, m.a. hengidalir. (GK-vefur)
Móskál er hengidalur. Myndin er tekin í Flókadal. (SH)

Við lok jökulskeiðsins tók að hrynja úr fjöllunum. Víða voru brattar hlíðar og jökullinn studdi ekki lengur við. Þar má sjá skriður og urðarbingi sem mynduðust eftir að jökullinn hvarf.

Urðarbingir við fjallshlíð… og álftir nýkomnar til landsins (SH).

Flott fræðiorð
Jarðfræðingar hafa fundið skemmtileg orð yfir jarðfræðileg fyrirbæri. Hver ætli sé hugsunin á bak við orðin hvalbak og grettistak

Leitað jökulminja
[[]] Takið myndir af jökulminjum í umhverfi ykkar og útskýrið hvernig þær hafa líklega myndast. Greinið frá hvar myndirnar eru teknar.

>>> GAMLAR STRENDUR >>>