Strönd

Í fjöru nálægt Kolkuósi (SH).

Algengt er að klettar eða lágreist björg séu við strendur Skagafjarðar. Framan við eru gjarnan hnullungar og grófur sandur. Fyrir botni Skagafjarðar falla Héraðsvötnin til sjávar og þar eru sandfjörur. Víðast eru fjörurnar fyrir opnu hafi og þar er brimasamt. Munur á flóði og fjöru á stórstreymi fyrir Norðurlandi er 1,1 m – 1,5 m. Allar þessar fjörugerðir má finna í Skagafirði: sandfjöru, malarfjöru, hnullungafjöru, klapparfjöru og sjávarbjörg.

Þang nær fótfestu þar sem er fast undirlag t.d. klettar og stórt grjót. Í sandfjörum er lítið um þang enda er þar allt á iði í öldugangi.

Google Earth flugfélagið!
Takið ykkur á flug með hjálp Google Earth eða Loftmynda ehf  og skoðið strandlengjuna í Skagafirði. Reynið að átta ykkur á hvers konar fjörur er um að ræða. Skoðið hvernig framburður Héraðsvatna dreifist um sjóinn við ós þeirra.

Í návígi
Farið niður í fjöru og lýsið umhverfinu þar. Hvar er staðurinn og hefur hann ákveðið örnefni? Er fjörugróður í fjörunni (þang og þari)? 

Brött eða hallalítil fjara
Ímyndið ykkur bratta fjöru og aðra sem er mjög hallalítil. Ímyndið ykkur að þið merkið hvert sjórinn nær á stórstraumsfjöru og -flóði í báðum fjörunum. Í hvorri fjörunni er fjarlægðin á milli merkjanna meiri? Er fjaran sem þið skoðið hallalítil eða brött? 

Kanna lífríki fjörunnar.

>>> HÉRAÐSVÖTN OG JÖKULSÁRNAR >>>