Smádýr

Skoðið smádýr sem sagt er frá í bókinni Lífríkið í fersku vatni og skoðið einnig þau dýr sem lýst er í Greiningarlyklum um smádýr – Vatnið.

Ólík búsvæði 

Tjarnatíta.

Aðstæður fyrir smádýr eru ólíkar eftir því hvort um er að ræða mýri, stöðuvötn, tjarnir, lindir, ár eða læki.

Í stöðuvötnunum eru langstærsti hluti lífveranna í vatnsbolnum, fjarri botni og strönd. Þar eru svifverur (bæði jurtir og dýr) og lífverur sem synda. Svifverurnar eru flestar svo smáar að þær sjást ekki með berum augum, en mikið er gaman að skoða þær í smásjá.

Botn vatna getur verið fjölbreyttur. Algengt er að við ströndina sé grjót, möl eða sandur en þegar komið er á meira dýpi sé leir og leðja ríkjandi. Ef geislar sólar ná til botns vex þar gróður. Meðal botndýranna eru lífverur sem lifa á rotnandi leifum, enda margar dauðar lífverur sem falla til botns. Við ströndina eru margar tegundir dýra og plantna, einkum ef undirlagið er kyrrt t.d. grjót eða hraun.

Í grunnum tjörnum má segja að allar lífverur séu við botninn og iðulega er þar talsverður gróður. Hitastig vatns í tjörnum sveiflast eftir hita umhverfisins.

Smádýr sem lifa í straumvatni eru aðallega við botninn. Þar geta þau falið sig fyrir fiskunum í glufum og inni á milli í botngrjóti og um leið staðist strauminn. Sum dýr geta líka fest sig á botninn eða þyngt sig svo þau fljóti ekki í burtu. Dæmi um þetta eru bitmýslirfur og vorflugulirfur. Ef svifverur stöðuvatnanna berast niður í árnar berast þær einfaldlega burt með straumnum. Þetta er kallað rek og er það mjög mikilvæg fæða fyrir fiskana í ánum.

Magn reks í nokkrum skagfirskum ám. Eftir því sem straumurinn er meiri er rekið meira í ánni. (SÓS)

Smádýralíf í Vestari-Jökulsá hefur verið sérstaklega skoðað. Ofarlega í ánni eru rykmýslirfur algengasta smádýrið á botninum. Skoða lífsferil rykmýs. Eftir því sem lengra dregur frá jöklinum og hæð yfir sjávarmáli lækkar má sjá að smádýrin lifa þéttar og tegundunum fjölgar. Við sjáum t.d. meira af bitmýi, steinflugum og vorflugum. Þar bætist líka við meiri gróður. Neðst í ánni reynist tegundasamsetningin svipuð og í helstu ám sem í hana renna.

Til eru mýmargar tegundir rykmýs! Margar þeirra þola vel harðneskjulegt umhverfi. Bitmý er aftur á móti algengara í næringarríkum ám.

Heitar lindir

Í hverri lind eru aðstæður stöðugar. Vatnið kemur fram úr jarðlögunum tært og hreint og hitastig er það sama árið um kring. Það er þó mismunandi eftir stöðum hverjar þessar aðstæður eru nákvæmlega. Efnasamsetning vatnsins ræðst af jarðlögunum sem það seytlar í gegnum og svo er vatnið af ólíku hitastigi.  Lindir geta verið kaldar, heitar eða volgar. Í Skagafirði er þó nokkuð um heitar lindir.

Agnes Kreiling líffræðingur safnar sýnum við heita lind (DG).

Nú eru í gangi rannsóknir á smádýrum í lindum og er augum sérstaklega beint að tegundasamsetningu og fjölbreytni smádýranna útfrá mismunandi hitastigi vatnsins. Niðurstöður rannsóknanna geta komið að liði þegar spáð er fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á smádýralíf linda og vatna almennt.

Árið 1937 rannsakaði danskur vísindamaður, Søren Ludvig Tuxen, heitar lindir í Skagafirði. Hann hélt til á bænum Mælifelli frá apríl og langt fram á sumar. Hann greindi smádýr og mældi líka hita og sýrustig. Agnes, sem er á myndinni, og félagar hennar hafa borið sínar niðurstöður saman við það sem Tuxen fann og komist að því að aðstæður eru nánast þær sömu í lindunum. Núna ná þó vísindamennirnir að greina fleiri tegundir lífvera.

Varmaperla (AK).

Við heitar lindir finnst áhugaverð fluga sem kölluð er varmaperla. Tuxen fylgdist svo sannarlega með henni. Þetta er sérstök lífvera sem er afbrigði af laugaperlu sem er algeng fluga við votlendi á norðurhveli jarðar. Varmaperla, er hins vegar einungis á Íslandi, svo vitað sé. Reyndar eru til mörg afbrigði varmaperlu sem virðast þróast af laugaperlu á hverjum stað fyrir sig, á ótrúlega stuttum tíma. Hún er með stutta vængi og fer ekki langt. Varmaperla og lirfa hennar er oft í miklu magni á vatnsborðinu og gæðir sér þar á þörungum og hitakærum gerlum sem mynda skán á vatninu. Það er gaman að fylgjast með þessum fallegu flugum og oft má sjá karlflugur dansa eggjandi dans fyrir kerlurnar!

  • Lesið um það á Vísindavefnum hvað mýflugur græða á því að bíta. Takið líka eftir lýsingum á lífi flugnanna á mismunandi æviskeiðum. 
  • Skoðið lirfur bitmýs, rykmýs og vorflugna. Hvar lifa þessi kvikindi? 
  • Farið út á góðum degi að vori, sumri eða hausti og takið sérstaklega eftir þeim flugum sem á vegi ykkar verða. Lýsið þeim í stuttu máli og jafnframt umhverfinu sem þær eru í.  
  • Skoðið myndina af rekinu í mismunandi ám í Skagafirði. Í hvaða á er mesta og minnsta rekið? 
  • Hvað eru mörg ár síðan Tuxen var á Íslandi? Hvernig var þá umhorfs? 
  • Varmaperla nær að fjölga sér oftar en ýmsar aðrar flugur yfir sumarið. Hvernig gæti staðið á því? 

>>> FUGLAR >>>