Fjöll

Finnst ykkur gaman að ganga á fjöll? Það getur verið svolítið þreytandi og sumum finnst bara gaman að fara niður! Flestir verða afar stoltir. Skemmtilegt er að vita hvað helstu fjöllin heita, það kemur sér líka oft vel, t.d. þegar smalað er eða gefin leiðarlýsing.

Ef þið farið í fjallgöngu ættuð þið að skoða vel á korti leiðina sem þið farið og átta ykkur  nákvæmlega á hvar fjallið er. Leiðbeiningar um fjallaferðir og útivist má m.a. finna á vefsíðu Fjallavina og vefsíðu Ferðafélags barnanna.

Útivistarhópur FNV í Gvendarskál í september 2017 (ÞVÞ).

Fjallahringir

  • Takið myndir af fjöllunum sem þið sjáið heiman að frá ykkur. Setjið nöfn helstu fjallanna við eða á myndirnar. Skoðið myndirnar oft, eða þar til þið þekkið öll fjöllin með nafni! 
  • [[]] Búið til veggspjöld eða glærusýningu sem sýnir myndir af fjöllunum sem þið sjáið frá skólanum ykkar. Hvað heita fjöllin? Þið megið taka myndir af fjöllunum, teikna þau eða mála.
  • Staðarfjöll og Blönduhlíðarfjöll eru fjallaklasar í Skagafirði. Þekkið þið þá? Getið þið kannski nefnt fleiri? 

Nokkur fjöll í Skagafirði:


Molduxi (706 m.y.s.) er í uppáhaldi hjá mörgum Skagfirðingum. Skólablað nemenda í FNV heitir Molduxi. Ljósa bergið í fjallinu er líparít. Molduxi er gömul megineldstöð. (Mynd: SH)


Kaldbakur er með hæstu fjöllum vestan til í Skagafirði, 965 m.y.s.. Hann er áberandi í fjallaklasanum og skagar upp úr honum. (Mynd: SH)


Tindastóll (990 m.y.s.) er norðan við Sauðárkrók. Það er mikið fjall og sést víða að. Þar er fjölbreytt berg og því er sagan um óskasteininn ekki út í bláinn. Lesa söguna. Molduxamegineldstöðin teygir sig inn í Tindastól. Smellið hér til að sjá mynd af Tindastóli sem tekin er hinum megin frá! (Mynd: SH)


Mælifellshnjúkur er hár eða 1138 m.y.s.. Af honum er víðsýnt og hann sést víða að, eða úr öllum landsfjórðungum. Hann breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft. Hann er á mörkum byggðar og óbyggða. (Mynd: SH)


Glóðafeykir (910 m.y.s.) er formfagur og stendur sér meðal fjalla í Blönduhlíðarfjallgarðinum. Hver sá sem gaf þessu fjalli nafn hefur verið snjall! Mörgum þykir mikið til fjallsins koma og ungmennafélagið í Akrahreppi ber nafn þess auk fréttablaðsins Feykis. (Mynd: SH)


Hólabyrða (1244 m.y.s.) er fjallið ofan við Hóla í Hjaltadal. Orðið byrða þýðir kista. Í Hólabyrðu hefur myndast stór sylla sem nefnd er Gvendarskál. Rauði steinninn sem notaður var til að byggja Hóladómkirkju er kominn úr Hólabyrðu. Veitingastaðurinn á Hólum heitir Undir Byrðunni. (Mynd: SH)

This image has an empty alt attribute; its file name is ennishnjukur-1024x449.jpg

Ennishnjúkur (725 m) er sannkallað bæjarfjall en sýnin á það frá Hofsósi er mjög tignarleg. (Mynd: SH)


Grænuvallahnjúkur er áberandi og fallegt fjall í Fljótum. Hæðin er 903 m.y.s. (Mynd: SH)


Hólamannahnjúkur er hæsta fjall Skagafjarðar, 1406 m. Það er í botni Kolbeinsdals. (Mynd: HÞ)

Finna má hringsjár á eftirfarandi stöðum: Í Drangey, á Arnarstapa í Vatnsskarði, við kirkjugarðinn á Nöfunum og á Reykjarhóli í Varmahlíð. Tré eru farin að skyggja á útsýni frá Reykjarhóli. Því hefur þar verið komið fyrir ljósmyndum á betri stað, með merkingum sem sýna allan fjallahringinn.

Leiðarlýsingar á fjöll má meðal annars finna í Árbókum Ferðafélags Íslands (2012, 2014 og 2016), á Göngukortum Hólaskóla, Háskólans á Hólum og kortum sem hafa yfirskriftina: Gönguleiðir í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði (Áskell Heiðar Ásgeirsson). Við sum fjöll hefur Sveitarfélag Skagafjarðar komið upp leiðbeiningarskiltum (Mælifellshnjúk, Tindastól, Hólabyrðu og Ennishnjúk).

>>> MYNDUN OG MÓTUN >>>