Nýting náttúrunnar

Landbúnaður

Forvitnir hestar (SH).

Í Skagafirði er stundaður mikill landbúnaður. Hann snýst að stórum hluta um að framleiða matvæli, en svo eru líka minkabú á svæðinu þar sem framleidd eru skinn að ógleymdum hrossaræktarbúunum, þar sem markmiðið er að rækta góða reiðhesta.

Bændur halda dýr og rækta landið. Í landbúnaði er náttúran nýtt. Mikilvægt er að það sé gert þannig að landið beri ekki tjón af og það sem framleitt er til matar sé hollt, gott og ómengað. Dæmi um hvað bændur þurfa að hugsa um:

  • Velferð dýra.
  • Nýta vel áburð og bera á tún á réttum tíma. Berist mikill áburður eða næringarefni í ár og vötn getur það verið slæmt fyrir lífríkið þar.
  • Varast eitur í landbúnaði, t.d. skordýraeitur eða illgresiseyði.
  • Hvíla rýrt land. Ofbeit fer illa með landið.
  • Ganga vel frá sorpi og flokka það. Rusl sem er látið grotna á bæjunum er ljótt og slæmt fyrir umhverfið.
  • Takmarka útblástur, t.d. vinnuvéla, eins og unnt er.
  • Forðast framræslu votlendis (vegna lífríkis og áhrifa á loftslag).
Tún undirbúið fyrir sumarið (SH).

Landgræðsla ríkisins er stofnun sem fylgist með að vel sé farið með land, vinnur að því að græða landið og fræða bændur og almenning um sem besta nýtingu og umgengni við landið. Nokkur svæði í Skagafirði þar sem unnið er að landgræðslu á vegum Landgræðslu ríkisins:  Garðssandur, Goðdalafjall, Hafragilsgirðing, Litlisandur og Skiptabakki.

Fljótasiglingar (FS).

Aðrar atvinnugreinar

Fleiri atvinnugreinar en landbúnaður byggja á nýtingu náttúrunnar í starfsemi sinni. Þar má sem dæmi nefna ferðaþjónustu sem er stærst atvinnugreina á Íslandi. Flestir ferðamenn koma til landsins til þess að njóta náttúrunnar. Aðrar greinar sem tengjast beint náttúrunni eru fiskveiðar, fiskeldi, rannsóknir og þekkingarstarfsemi, iðnaður o.fl.

Virkjanir

Íslendingar framleiða rafmagn með því að virkja vatnsafl. Í Skagafirði eru Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og Gönguskarðsárvirkjun á Sauðárkróki, auk smærri virkjana. 

Oft hefur verið rætt um að virkja Jökulsárnar og eru tveir kostir ræddir: Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun. Þess má geta að 5% rafmagnsins sem framleitt er á Íslandi er nýtt á heimilum, 15% eru nýtt í íslenskum fyrirtækjum, en langmest fer til stóriðju eða 80%. 

Ljóst er að Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun myndu hafa mikil áhrif á umhverfið, meðal annars draga úr framburði, breyta búsvæðum og hafa mikil áhrif á samfélög lífvera, ekki síst á neðsta hluta Héraðsvatna, í flæðimýrunum og meira að segja á landgrunninu úti í sjó. Lesa um vistkerfi Jökulsánna og Héraðsvatna.

Verkefni sem tengist umgengni við náttúruna.