Staðhættir og veður

Sjórinn

Horft á sjóinn við Hofsós.
Horft á sjóinn við Hofsós (SH).

Nálægð við sjó skiptir máli upp á veðurfar. Sjórinn hefur áhrif á hitastig á þann hátt að hann dregur úr hita á sumrin og kulda á veturna. Sjórinn er nefnilega almennt heitari en landið á vetrum en kaldari á sumrin. Á strandsvæðum við opið haf er vindasamt. Fjarri sjónum gætir áhrifa hans minna eða ekki og þar getur orðið bísna kalt og heitt.

Hæð yfir sjávarmáli

Veður gott, en betra niðri í byggð!
Veður gott, en betra niðri í byggð! (SH)

Þið sem gengið hafið á fjöll eða farið upp á hálendi hafið líklega tekið eftir að þar er oft kalsamt. Hiti fellur nefnilega gjarnan með hæð. Þegar farið er upp um 100 m lækkar hitinn að meðaltali um 0,6°C.

Landslag

Há fjöll geta stöðvað vindinn og haldið honum frá stórum svæðum. Þannig mynda fjöllin á Tröllaskaga skjól fyrir austan- og norðaustanátt enda er sú vindátt ekki algeng í Skagafirði. Undantekningar frá þessu má finna í dölum sem teygja sig langt inn í Tröllaskaga.

Fjöll geta magnað vindinn þegar hann finnur sér leið framhjá þeim oft um þrönga dali eða skörð. Þar sem vindur kemur niður af fjalli, einkum ef fjallið er bratt og eggjað, verður hann oft snarpur og hviðóttur.

Fjöll kalla fram úrkomu. Þegar loft þrýstist upp fjallshlíð kólnar það. Kalt loft getur ekki borið jafnmikinn raka og hlýrra loft og því fer að rigna eða snjóa sé loftið rakt og kólnunin nógu mikil.

Jöklar myndast og viðhaldast þar sem kalt er árið um kring. Jöklarnir sjálfir kæla sömuleiðis loftið í kringum sig.

Hafís

Hafís við Ísland getur myndast á fjörðunum og heitir hann þá lagnaðarís. Sjaldan er nógu kalt til að lagnaðarís verði mikill. Algengara er að hafís reki með hafstraumum í átt til Íslands frá Grænlandi. Komi hafís til landsins gerist það iðulega seint að vetri eða undir vor. Hafísinn kemur að landi nyrst á Vestfjörðum og berst síðan með straumum með Norðurlandi.

Hafís hefur margvísleg áhrif. Fyrst skal nefna kuldann sem honum fylgir og neikvæð áhrif á lífríkið. Hvítabirnir fylgja hafísnum og þegar mikill hafís er við landið eru auknar líkur á heimsóknum þeirra.

Tengt efni: Hvítabirnir

Veðrið og fjöllin
Þekkið þið staði í nágrenni við skólann ykkar eða heimili þar sem vindhviður eru algengar? Veltið fyrir ykkur af hverju. 

Veðrið og sjórinn

  • Hvar eru þessir staðir: Nautabú, Siglunes og Hólar?
  • Berið saman hitastig þessara staða yfir vetrarmánuðina. Hvar verður kaldast?
    Berið saman hitastig þessara staða yfir sumarmánuðina. Hvar verður heitast?
  • Hafgolu gætir sums staðar langt inn í land. Finnið þið fyrir hafgolu á sumrin þar sem þið eigið heima? Ræðið þetta við fjölskyldu ykkar.