Hvítabirnir

Hvítabjörn. Myndin er tekin á Svalbarða. (JÓH)

Heimkynni hvítabjarna eru á hafís og með ströndum Norður-Íshafs við næringarríkan, grunnan sjó. Selir eru þeirra aðalfæða.

Hvítabjörnum fer fækkandi í heiminum. Um miðja síðustu öld voru þeir ofveiddir og var brugðist við því með friðun. Núna eru búsvæði hvítabjarna í hættu vegna hlýnunar.

Stundum rekur ís nálægt ströndum Íslands, einkum norðan til og vestan og þá aukast líkur á komum hvítabjarna. Hvítabirnir geta þó synt langar vegalengdir. Flestir birnirnir sem koma til Íslands eru taldir koma frá Grænlandi, en einhverjir frá Svalbarða. Til eru upplýsingar um rúmlega 600 hvítabirni hérlendis frá upphafi landnáms. Þessi tala er ekki nákvæm og talið er að einhver dýranna kunni að vera tvítalin.

Hvítabjörninn sem felldur var við Þverárfellsveg í júní 2008 (BsSk).

Þó nokkrir hvítabirnir hafa gengið á land í Skagafirði og reyndar hafa sumir komist langt inn í land. Skagi (Ásbúðir, Ásbúðartangi, Hraun, Efra-Nes og Ytra-Malland), Sauðárkrókur, Hjaltadalur (Hólar og Reykir), Sléttuhlíð og Fljót (Hraunkrókur, Haganesvík) eru allt staðir sem nefndir eru í heimildum. Nýjustu dæmin um hvítabirni í Skagafirði eru síðan:
16. júlí 2016 á Hvalnesi á Skaga
16. júní 2008 á Hrauni II á Skaga
3. júní 2008 við veginn yfir Þverárfjall (nálægt vegamótum út á Skaga).

Dýrin sem komu árið 2008, birna og björn, voru bæði gömul og vel undir meðalþyngd, sérstaklega birnan. Björninn var 22ja ára gamall og langt yfir meðalaldri. Þegar þessa gesti bar að garði var langt í hafís og ljóst að dýrin syntu langa leið áður en þau komu að landi.

Birnirnir komu til Íslands á fengitímanum. Þá eru átök á milli karldýranna sem keppa um birnurnar. Öldungurinn hefur líklega ekki verið klár í þann slag og samkvæmt greiningu var birnan búin að eignast og ala húna að minnsta kosti þrisvar, ef ekki fjórum sinnum. Hún hafði skilað sínu um ævina. Utan fengitíma eru hvítabirnir einfarar. Mörg dæmi eru um að stælt karldýr hafi drepið aðra hvítabirni. Með því að taka stefnuna frá heimkynnum sínum voru dýrin kannski að forðast átök við sterkari dýr.

Hvítabjörninn sem mætti í júlí 2016 var birna í góðum holdum á 12. ári. Miðað við útbreiðslu hafíss á þeim tíma er ljóst að hún synti langa leið. Hægt var að greina mjólk í spenum hennar og er álitið að húnninn eða húnarnir hennar hafi farist á leiðinni til landsins. Hún var með nokkur sár á líkamanum og ein vígtönn var brotin.

Hvítabirnir í Skagafirði

  • Lesið um nýlegar hvítabjarnarheimsóknir í Skagafirði í fjölmiðlum. Hvernig voru aðstæður og hver varð fyrst var/vör við birnina? Hvernig voru viðbrögðin?
  • Árið 2008 skapaðist umræða um hvort hægt væri að bjarga hvítabjörnum sem hingað þvældust og koma þeim aftur til sinna heimkynna. Kynnið ykkur málið. Safnið saman rökum með því að gera þetta og rökum með því að fella dýrin. 

Lesa um hvítabirni: