Farfuglar

Þann 15. mars bárust fréttir af því að lóan væri komin. Hér sjáið þið hvar lóan heldur sig á veturna:

Vetrarstöðvar heiðlóu (kort af Fuglavefnum, Menntamálastofnun).

Ef þið ímyndið ykkur að þið sláist í för með lóunni og íhugið hvar þið komið til landsins þurfið þið líklega ekki að hugsa lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að Suðausturland sé líklegur staður. Lóan sem fréttist af þann 15. mars var einmitt þar, nálægt Höfn í Hornafirði.

Farfuglar frá Evrópu sjást gjarnan fyrst á þessum slóðum en dreifa sér síðan um landið. Oft hvíla þeir sig og byggja sig upp í fjörunni við komuna til Íslands. Hvenær ætli lóan komi hingað í Skagafjörð?

Í apríl kemur fjöldi farfugla til landsins. Oft eru þeir kallaðir vorboðar. Hér er skemmtilegt ljóð um þá:

VORBOÐAR

Hópur fugla flýgur lágt yfir sjó
á leið til landsins, vængjaslátturinn
dregur vorið á eftir sér sunnan úr álfu.

Óþreyjufullt flugið styttist uns
eygja þeir kunnugleg fjöll í norðri.

Örþreyttir rjúfa fuglarnir lofthelgi Íslands.

Brátt leggja þeir græn teppi
yfir öll tún og lýsa upp nóttina
með sólbjörtum söngvum.

Ari Jóhannesson
(birt á facebook 21. mars 2020 og í aprílhefti Læknablaðsins 2020)

Skoðið vel myndirnar sem Ari dregur upp í ljóði sínu um vorboðana.

Hjálpist að við að finna leiðir til að fylgjast með og skrá komu farfuglanna í Skagafirði. Ræðið aðferðir ykkar við kennarann.

Helsingjar eru mjög áberandi í Skagafirði á vorin. Þeir eru umferðarfarfuglar og staldra við á Íslandi á leið sinni til varpstöðvanna á Grænlandi. Sérstakur kafli er um helsingja hér á vefnum >> LESA.