Stöðuvötn

Stöðuvötn eru af ýmsu tagi og þau eru mörg í Skagafirði (sjá kortið.) Sum eru stór, önnur lítil, sum eru á grónu landi, önnur á berangri, sum eru upp til heiða, önnur á láglendi. Allt þetta skiptir máli fyrir lífríkið.

Höfðavatn á Höfðaströnd. Takið eftir malarrifinu sem aðskilur það frá sjónum. (SH)

Stærstu vötnin í Skagafirði eru sjávarlón: Miklavatn í Borgarsveit, Höfðavatn á Höfðaströnd og Miklavatn í Fljótum. Malarrif skilja þau frá sjónum. Vatnið í sjávarlónum er gjarnan salt. Miklavatn í Borgarsveit er þó ekki lengur nátengt sjó og vatnið í því er ekki salt.

Stífluvatn í Fljótum er mjög stórt. Það myndar uppistöðulón fyrir Skeiðsfossvirkjun. Vatnið var stíflað og vatnsborðið hækkað. Við það stækkaði vatnið talsvert og margar jarðir lögðust í eyði. Upp af Sæmundarhlíð eru Hólsvötn. Þau eru kunn veiðivötn. Vatnshlíðarvatn er líka lífmikið vatn og hefur verið mikið rannsakað. Vötnin eru mörg á Skaga, frá láglendi til fjalla. Þau eru mörg frjósöm með miklum fiski.

Lesa nánar um einstaka vötn og fiska. 

Stöðuvatn
Veljið ykkur vatn í Skagafirði og aflið ykkur upplýsinga um það. Þið getið ef til vill lesið ykkur til í árbókum Ferðafélags Íslands, í Byggðasögu Skagfirðinga, í gögnum frá Háskólanum á Hólum, Veiðimálastofnun,  Hafrannsóknastofnun eða fræðst af þeim sem eru kunnugir um vatnið. Farið að vatninu ef hægt er. (Sama verkefni er einnig á síðu um lífríki votlendis). 

 • Hvað heitir vatnið?
 • Hvar er það?
 • Hvað er það stórt?
 • Renna ár eða lækir í vatnið? Renna ár eða lækir úr vatninu?
 • Finnið loftmyndir af vatninu.  
 • Hvernig er umhverfi vatnsins? 
 • Er fiskur í vatninu?
 • Lýsið botninum við ströndina. Er hann grýttur, sendinn eða leirkenndur? 
 • Rannsakið lífríkið í vatninu við ströndina og greinið skilmerkilega frá. Gott er að nota litla háfa. 
  • Sjáið þið plöntur og þörunga?  
  • Getið þið veitt einhver smádýr? 
  • Sést til fiska? 

>>> MÝRAR >>>