Megineldstöðvar og eldfjöll

Af og til mælast jarðskjálftar í Hofsjökli sem er eina virka eldstöðin í Skagafirði (SH).

Í Skagafirði er engar virkar eldstöðvar fyrir utan Hofsjökul. Nokkur lítil gos urðu í jöklinum á nútíma, sem á máli jarðfræðinga þýðir á síðustu 10.000 árum. Þar hefur þó ekki gosið síðan Ísland byggðist og ekki eru taldar miklar líkur á að það gerist nú á dögum. Í Skagafirði má þó víða sjá forn merki um eldvirkni.

isl_eldstker800
Smellið á myndina til að stækka hana. (GK-vefur)

Eldvirkni á Íslandi er bundin við svokölluð gosbelti, sjá mynd. Gosbeltin eru alsett sprungum sem mynda ákveðna klasa eða sprungusveimi. Þar geta verið fjölbreyttar eldstöðvar en um miðbik sprungusveims hleðst oft upp megineldstöð.

Undir megineldstöðinni er kvikuhólf sem inniheldur bráðið berg. Þar verða endurtekin gos á löngum tíma. Megineldstöð er yfirleitt 10-15 km í þvermál.

Þegar kvikuhólf tæmist getur það fallið saman og myndast þá askja.

Dæmi um virkar megineldstöðvar á Íslandi: Hekla, Katla, Bárðarbunga, Eyjafjallajökull, Grímsvötn og Krafla.

Bergið og jarðlögin sem við sjáum mest af í Skagafirði urðu til á fornum gosbeltum en er tímar liðu rak jarðlögin smám saman frá þeim vegna landreks. Aldur bergsins er 3-12 milljón ára.

Molduxi er gömul og kulnuð megineldstöð. Í honum og næsta nágrenni sjást skellur af bergtegundinni líparíti, en algengt er að sjá líparít við megineldstöðvar. Líparít er ljóst að lit og hefur marga litatóna. Molduxaeldstöðin er stór og teygir sig meðal annars inn í Tindastól. Við Flókadal í Fljótum er sömuleiðis kulnuð megineldstöð. Megineldstöð sem er áberandi í Austur- og Vesturdal er kölluð Tinnáreldstöðin.

Hluti Tinnáreldstöðvar. Líparít er áberandi (SH).
Ketubjörg (SH).

Ketubjörg á Skaga, Drangey og Þórðarhöfði eru kjarnar eldfjalla sem gusu á seinni hluta ísaldar eða fyrir um það bil hálfri milljón ára. Bergið í þeim heitir móberg, en það myndast í gosi undir jökli. Mælifellshnjúkur myndaðist sömuleiðis undir jökli, en nokkru seinna.

Eldstöðvakerfi
Skoðið vel myndina hér að ofan sem sýnir eldstöðvakerfi Íslands. Hvar varð síðast eldgos? Getið þið staðsett það á myndinni? Varð eldgosið í eða við virka megineldstöð? 

Lesa meira um eldgos
Oddur Sigurðsson. 2013. Jarðfræðivefurinn. Námsgagnastofnun. 

>>> STUÐLABERG >>>