Héraðsvötn og Jökulsárnar

Hér er sett fram skilgreining á vistkerfi. Héraðsvötn og Jökulsárnar eru nefnilega magnað vistkerfi.

Vistkerfi: Safn allra lífvera er hafast við í afmörkuðu rými af tiltekinni gerð, ásamt öllum verkunum og gagnverkunum meðal lífveranna og tengslum þeirra við lífræna jafnt sem ólífræna umhverfisþætti sem tilheyra kerfinu, svo sem loft, vatn, jarðveg og sólarljós.
Í stuttu máli: Lífverusamfélög ásamt því ólífræna umhverfi sem þau búa við mynda vistkerfi.

Vistkerfi nær yfir lífverur en einnig það sem er líflaust innan kerfisins. Ferlar og tengsl innan þess geta verið afar flókin (d. fæðuvefur). Vistkerfi geta verið af ýmsum stærðum. Það mætti meira að segja búa til lítið vistkerfi í skál. Líta mætti á litla tjörn sem vistkerfi en einnig Jökulsárnar, Héraðsvötnin og vatnasvið þeirra. Það er sannarlega stórt vistkerfi.

Héraðsvötn úr lofti (Paul Oostveen).

Vistkerfi Héraðsvatna og Jökulsánna er magnað því það er:

.. stórt
Héraðsvötn skila vatni af 65% þess svæðis sem tilheyrir Skagafirði. Ef við teiknum þau upp ásamt Jökulsánum og öllum aðrennslisám minnir myndin á stórt og mikið tré með ótal greinum og styrkum stofni.

.. fjölbreytt
Hér er átt við landslag og umhverfið en jafnframt margbreytileika lífveranna sem hafa lagað sig að ólíkum aðstæðum. Skýrt samband er á milli fjölbreytileika búsvæða og fjölbreytni þeirra lífvera sem þar búa. Árnar renna um misgróið land allt frá Hofsjökli við miðju landsins og til sjávar. Jökulár, dragár og lindár mynda vatnakerfið.

.. einstakt og ósnortið
Vatnsfallið á fáa sér líka í heiminum. Það er tiltölulega ósnortið og lífríkið hefur fengið að þróast nokkuð óáreitt. Ósnortin náttúra er verðmæt í sjálfri sér. Þarna hefur jökullinn haft mikil áhrif, en einnig veður, berggrunnurinn, landslagið og samspil lífvera.

Vegna þess að umhverfið er tiltölulega ósnortið eru Héraðsvötnin kjörinn vettvangur til rannsókna sem auka þekkingu okkar og skilning á náttúrunni.

Í Austurdal (BRH).

Í heiminum fækkar sífellt þeim svæðum sem eru ósnortin. Náttúrulegt og heilbrigt umhverfi getur verið manninum innblástur til sköpunar en jafnframt uppspretta vellíðunar.

Skoðum þetta aðeins betur:

Flæðimýrar og votlendi
Við Héraðsvötn eru víðáttumiklar flæðimýrar. Þar flæðir stundum yfir, þegar mikið er í Vötnunum og fíngerður framburður sest til. Þar er rakt og mjög næringarríkt umhverfi. Í votlendinu og flæðimýrunum við Héraðsvötn er að finna fágæt smádýrasamfélög. Það kemur kannski ekki á óvart að mikið fuglalíf er á þessum slóðum.

Gróðurvinjar
Á hálendinu eru lítt raskaðar gróðurvinjar þar sem gróður fær vætu frá ánum. Það er sérstakt að fara um víðáttumikil ógróin svæði og koma svo að þessum vinjum. Andstæðurnar eru sláandi. Orravatnsrústir eru einstakar og þar eru sérstætt samfélag lífvera, einkum gróðurs og smádýra. Mikil tegundaauðgi er við gljúfrin. Vatn gefur líf.

Fuglar
Mikið fuglalíf er í votlendinu í kringum Héraðsvötn. Við ósa Héraðsvatna eru svæði sem eru meðal tegundaríkustu svæða landsins! Svæðið við Miklavatn er friðlýst. Ekki er nóg með að tegundirnar séu margar heldur er fjöldi fugla mikill. Þetta eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Mikið fuglalíf er líka meðfram Jökulsánum, einkum á láglendi og í gljúfrunum er óvenjulega þétt hrafnavarp.

Búsvæði fiskanna
Í vatnakerfinu sjáum við allar ferskvatnstegundirnar: bleikju, lax, urriða, hornsíli og ál. Þar hefur líka sést til flundru, sem er ný tegund hérlendis.

Sjóbleikja í Miklavatni (© höfundarréttur Jón Baldur Hlíðberg).

Fiskarnir mynda fjölbreytt samfélög tegunda, stofna og afbrigða. Sumir fiskistofnarnir lifa við sérstakar aðstæður sem þeir hafa aðlagast. Má þar nefna sjóbleikju sem fer mjög langt upp á hálendið eða í 800 m hæð. Staðbundnir bleikjustofnar eru jafnframt í þessari hæð og halda sig við ferskt vatn og fara ekki í jökulvatn, hvað þá út í sjó. Almennt er fágætt að bleikja lifi í svo mikilli hæð.

Þótt kjöraðstæður lax séu fremur hlýjar ár og straumharðar, þá eru mjög stórir laxastofnar og sérstæðir, sem hafa aðlagast jökulvatni Héraðsvatnanna einu kaldasta vatnsfalli landsins.

Sjóbleikja er bleikja sem lifir í sjó en gengur upp í árnar og hrygnir í ferskvatni. Sjóbirtingur er urriði sem lifir og hrygnir í fersku vatni en gengur til sjávar, hluta ársins, til að afla fæðu og vaxa.

Framburður
Í gegnum aldirnar hafa árnar borið fram mikinn framburð sem smám saman hefur myndað frjósamt undirlendi, meginhérað Skagafjarðar (sjá kort sem sýnir gamlar strendur). Jökulár bera fram margfalt meiri aur en bergvatnsár. Framburðurinn er ekki einungis efni sem myndar nýtt land heldur virkar hann eins og áburður fyrir gróðurinn og er einkenndi fyrir búsvæðin t.d. votlendið.

Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor (1930-2002) lýsti í sendibréfi heimsókn að Eyhildarholti:
Yfir breiða kvísl […] Héraðsvatna kom syndandi allstór kúahópur, milli tíu og tuttugu gripir, auk kálfa, og héldu allir hölum sínum hátt til lofts upp úr lygnu vatninu. Þær voru að koma til mjalta úr allstórri eyju þar sem þær voru á beit á daginn. Ekki sá ég neinn kúasmala reka hópinn, heldur fylgdi hann gamalli, viturri forystukú sem vissi hvað tímanum leið. Ég undraðist hve léttilega þær syntu og sé enn fyrir mér tvo tugi kýrhala líða upprétta yfir skollita gára Héraðsvatna […]. Ég var kominn mátulega á fætur morguninn eftir til að horfa á eftir kúahjörðinni synda austur yfir Héraðsvötnin með hala sína upprétta til himins, guði til dýrðar.

Allt hangir saman
Vistkerfi er eins og líkami að því leyti að það er ákveðin heild þar sem þættir innan þess tengjast hver öðrum og allt virðist öðru háð. Breytingar eða áföll á einum stað geta því haft víðtæk áhrif innan vistkerfisins – líkt og hver önnur sýking í mannslíkamanum, jafnvel í litlu tá!

Héraðsvötn

  • Pælið í tengslum á milli lífveranna og einnig tengslum þeirra við umhverfið í flæðimýrunum við Héraðsvötnin. 
  • Víðáttumikið votlendi tengist Héraðsvötnunum og flæðimýrarnar eru þær stærstu á landinu og þó víðar væri leitað. Mikið er gert af því að endurheimta votlendi víða um land. Hver er tilgangurinn með því?
  • Skoðið á korti, eða loftmyndum, leið Jökulsánna og hvar þær sameinast í Héraðsvötn. Skoðið einnig aðrennslisár sem falla í meginárnar. 
  • Hvernig ætli kúnum hafi þótt að synda í Héraðsvötnum? Sjáið þið stundum búpening í Héraðsvötnum?