Ágengar lífverur

Lífvera sem flutt er í ný heimkynni til ræktunar eða annarra nota en breiðist út og veldur tjóni á náttúru sem fyrir er kallast ágeng tegund.

Víða um land hefur skógarkerfill dreift sér of mikið. Hann er hávaxinn og frekur á plássið. Margar plöntur fá ekki þrifist í návist hans. Í Fljótum er ástandið sérstaklega slæmt og hefur Náttúrustofa Norðlands vestra undirbúið aðgerðir til að sporna við skógarkerfli þar.

Alaskalúpína myndar breiður. Myndin er tekin við Þverárfellsveg. (SH)

Alaskalúpína hefur verið notuð í landgræðslu víða. Þetta er dugleg planta sem nær þrifist við erfiðar aðstæður. En hún breiðir líka úr sér þar sem fyrir er fjölbreyttur villtur gróður sem lætur undan í samkeppninni. Mjög erfitt hefur reynst að hafa nokkrar hömlur á alaskalúpínu og víða hafa myndast miklar og einsleitar lúpínubreiður. Talið er að lúpína eigi eftir að breiðast mjög um mólendissvæði á Norðurlandi. (Hvað er mólendi?) 

Í Skagafirði er minkur eins og víðast annars staðar á landinu. Minkur var fluttur til landsins til þess að rækta á loðdýrabúum á fjórða áratugnum. Einhver dýr sluppu út og minkur náði fljótlega fótfestu í íslenskri náttúru. Hann fékk nóg að éta og átti enga óvini fyrr en maðurinn tók að veiða hann.

Lesa meira um ágengar tegundir:
Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun. 

>>> NÝTING NÁTTÚRUNNAR >>>