Selir

Selur (JÓH).

Oft má sjá seli í Skagafirði. Þar eru bæði landselir og útselir. Selalátur eru svæði þar sem selir kæpa, eða eiga afkvæmi, sinna uppeldi, hafa feldskipti og hvíla sig. Ekki eru mjög stór látur landsela við Skagafjörð en í Málmey er útselslátur.  Látrið í Málmey er tiltölulega nýtt og er talið að selurinn hafi flúið þangað. Útselir eru viðkvæmir fyrir truflun.

Stærð látra er ýkt svo þau sjáist. Heildarflatarmál landselslátra er áætluð um 29 ferkílómetrar. (NÍ)
Stærð látra er ýkt svo þau sjáist. Heildarflatarmál útselslátra er áætlað um 23 ferkílómetrar. (NÍ)

Á vef Náttúrufræðistofnunar má skoða á korti hvar sellátur eru og tölur um fjölda sela á þeim. Talningar hófust árið 1980. Skoða.

Meiri líkur eru á að sjá landsel á landi að vori og síðsumars en á öðrum tímum. Þeir koma frekar upp á land þegar er fjara, veður blítt og hvorki rok né kuldi.

Bæði land- og útselur eru á válista. Landselur er í bráðri hættu og útselur í hættu.

Hugað að selum

  • Hvort er útselur eða landselur á myndinni hér að ofan? Skoðið fræðsluefni og berið saman útsel og landsel svo þið þekkið þá örugglega í sundur. Skoðið líka kópana. 
  • Skoðið kvikmynd sem sýnir urtu kæpa.
  • Skoðið kortasjá Náttúrufræðistofnunar og athugið sérstaklega sellátur við Skagafjörð og fjölda selanna. Búið til súlurit sem sýnir fjöldann myndrænt. (Talningarsvæðin heita Málmey og Skagi). 
  • Hvernig líður ykkur að vita af því að selir séu í hættu? 

Á VETTVANGI. Munið eftir sjónauka!: 

  • Fylgist vel með sel sem er úti í sjó og reynið að taka tímann hvað hann er lengi í kafi. 
  • Hvað gera selir? Skráið atferli þeirra. 
  • Ef þið sjáið fleiri en einn sel, takið þið þá eftir einhverjum samskiptum þeirra á milli. Hvernig eru þau samskipti? 
  • Taka selirnir eftir ykkur og hvernig vitið þið það? 
  • Getið þið greint hvort um er að ræða brimla, urtur eða kópa? Hvernig? 
  • Hvernig eru selir á litinn? 

Lesa meira um seli:

>>> FUGLAR VIÐ SJÓ >>>