Dýr

Þau dýr sem mestar líkur eru að sjá á göngu úti um grundir og móa eru líklega húsdýrin. Blómlegur landbúnaður er í Skagafirði. Villt landspendýr í Skagafirði eru refir, mýs og minkar. Viss hætta er að rottur berist með gámum og skipum en bætt heilbrigðisskoðun hefur dregið úr þessari hættu. Auk þess eru skilyrði fyrir rottur í Skagafirði erfið.

Svo eru náttúrulega smádýr í grassverðinum og jarðveginum sem gaman er að veiða og skoða – ekki síst í víðsjá.

Lesa meira um smádýr

  • Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun. 
  • Hrefna Sigurjónsdóttir og Snorri Sigurðsson. 2007. Greiningarlyklar um smádýr – vefur og prentað efni. Námsgagnastofnun. 
  • Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson. 2002. Dulin veröld – smádýr á Íslandi. Mál og mynd. 
  • Pöddur: skordýr og áttfætlur. 1989. Ritstjórar Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Landvernd.

Hagamýs

Hagamús (ÖÓ).

Kjörlendi músa er gróið land og grafa þær holur í jörðina og eru þar með bæli og forðabúr með fæðu. Þær éta fyrst og fremst ber, fræ og skordýr. Ef þær komast í mannamat éta þær hann, t.d. súkkulaði, kex og ost. Þið getið kannski nefnt fleiri dæmi?! Oft sækja þær í útihús enda er þar hlýtt og nóg að éta svo sem hey og korn. Mest ber á músum á haustin. Stór hluti þeirra eru ungar frá sumrinu.

Gaman er að fylgjast með músum. Hafið augun opin fyrir moldarhrúgum við gangnamunna. Kannski getið þið sett ostbita við opið og athugað hvort hann hverfur. Svo má líka veiða mýs án þess að drepa þær.

Refur

Af refnum eru tvö litaafbrigði á Íslandi. Annað er hvítt en hitt mórautt. Á heimskautasvæðinu, þar sem íslenski refurinn á uppruna sinn, er meirihluti refanna hvítur.  Á þeim stöðum sem dýrin sækja mikinn hluta fæðunnar að sjó eru hlutfallslega fleiri sem eru mórauð að lit. Dæmi um þetta er á Íslandi og Vestur-Grænlandi. Árin 1979-2002 voru litaafbrigðin kortlögð á Íslandi. Þá kom í ljós að refir eru mismunandi á litinn eftir landshlutum. Þessi hlutföll litaafbrigðanna er ekki föst og geta breyst af ýmsum ástæðum s.s. vegna veiða, ferða dýranna á milli svæða og náttúrulegs vals.

Myndin sýnir hlutfall hvíta afbrigðisins meðal refa á viðkomandi svæði. Af hverjum 100 refum eru 0-10 hvítir á dökkgrænu svæðunum en 80-100 á þeim ljósgrænustu. (PH)

Litir refa

  • Skoðið myndina hér að ofan vel. Hvar í Skagafirði er algengast að sjá mórauða vefi og hvar eru mestar líkur á að sjá hvíta refi? Kemur þetta á óvart?
  • Af hverju ætli sé meira um mórauða refi á Íslandi, t.d. á Hornströndum en á freðmýrum í Kanada? 

Lesa meira um mýs og refi

  • Um mýs á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
  • Melrakkasetur Íslands vefsíða með ýmsum fróðleik. 
  • Sigrún Bjarnadóttir. 2006 / 2013. Íslensku landspendýrin. Námsgagnastofnun.
  • Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun.
  • Íslensk spendýr. 2004. Ritstjóri Páll Hersteinsson. Vaka-Helgafell. 
  • Páll Hersteinsson. 1997. Agga gagg – með skollum á Ströndum. Ritverk.