Lindár og dragár

Grímsá við Þverárfellsveg telst vera lindá (SH).

Á svæðum þar sem jarðlög eru gljúp og draga í sig vatn kemur vatnið fram í lindum eða uppsprettum. Árnar flokkast sem lindár.

Einkennandi fyrir lindár er stöðugleiki. Veðrið nær ekki að hafa teljandi áhrif á þær. Vatnsmagnið er jafnt árið um kring og þær flæða ekki yfir bakka sína. Hitastig vatnsins helst nokkurn veginn það sama allt árið. Jafnframt er straumurinn hægur og jafn. Lindár orka ekki að bera með sér mikla möl eða sand og því síður grjót. Árbakkar lindáa eru grónir og steinarnir eru lítið máðir.

Í Skagafirði eru engar ár sem teljast vera lindár frá upptökum til ósa. Vatn sem kemur fram í lindum blandast venjulega við dragár eða jökulár. Lindár eru jafnan frjósamar. Næringarefnin koma úr berginu sem vatnið hefur seytlað um.

ooo

Þverá er dæmigerð dragá (SH).

Dragár eru þar sem jarðlögin eru þétt og vatnið kemst ekki auðveldlega niður í þau.

Víðinesá ólmast að vori og flæðir upp á bakka (SH).

Upptök dragáa eru óljós enda safnast vatnssprænur saman, mynda læki og síðan ár. Veðrið hefur mikil áhrif á dragár. Hiti vatnsins fer upp eða niður í takt við umhverfið. Í rigningartíð eða leysingum, getur vatnsmagnið margfaldast. Þá grefur áin sig niður af miklum krafti og flæðir yfir bakka sína. Möl og grjót veltast með straumnum. Iðulega myndast ís í dragám á veturna. Hann getur flutt með sér stórt grjót. Stórir steinar í farvegi dragáa bera þessu vitni. Steinarnir í ánni og við árfarveginn verða máðir og árbakkar eru ekki grónir.

Lesa um lífríki ólíkra vatnsfalla.

Vatnavextir

Mikið vorflóð í Héraðsvötnum 28. mars 2000 (Byggðasaga Skagafjarðar).

Munið þið eftir vatnavöxtum í einhverjum ám í Skagafirði? Getið þið lýst því sem gerðist? Ef þið munið ekki eftir að ár hafi flætt yfir bakka sína getið þið spurt fullorðna út í þetta eða leitað að gömlum fréttum. Kannski getið þið fundið myndir. Ræðið!

>>> FRAMBURÐUR ÁA >>>