Skagafjörður

Lítið brot úr stórum ljóðabálki

Komstu, skáld, í Skagafjörð,
þegar lyng er leyst úr klaka-
laut og yfir túnum vaka
börnin glöð við gróðurvörð,
lömbin hoppa um holtabörð,
heiðalóur úti kvaka?

Flissa á brotum bláar ár,
bæir dotta í grænum túnum.
Vökuljósum lyftir brúnum
fjallaskagi skúrablár,
beggja megin himinblár,
hérað vefur örmum snúnum.

Björt er sveit, og sést til alls,
sólin ríður vaðið bláa
Tindastóls frá hnjúkum háa
yfir að hyrnu Höfðafjalls.
Eyjar, haf og hæðir dals
hillir upp við loftið gljáa.

Stephan G. Stephansson
(Andvökur Reykjavík, Mál og menning, 1980) 

Ljóðið er myndrænt. Veljið 1-2 ljóðlínur sem ykkur finnst gefa skemmtilega eða fallega mynd! Gaman væri að bera saman myndirnar sem koma upp í huga þinn og hinna! 

Stephan G. Stephansson (1853-1927) hét upphaflega Stefán Guðmundur Guðmundsson. Hann ólst upp í Skagafirði en flutti ungur til Vesturheims ásamt foreldrum sínum og systur. Hann var bóndi, verkamaður og mikið ljóðskáld. Lesa meira um Stephan G.