Ruslagámur á ferð!?

Jólin eru ekki búin og enn má hugsa um jólasveinana. Stundum er talað um að þeir séu einn og átta, aðrir segja þá þrettán. Líklega eru þeir mun fleiri bræðurnir og ekki má gleyma systrunum til dæmis henni Leiðindaskjóðu.

Jólasveinninn Ruslagámur var fremur hlédrægur áður fyrr en er nú farinn að láta til sín taka. Vonandi sést hann ekki mikið í Skagafirði. Eitthvað er óljóst hvenær hann kemur og hvenær hann fer, en ljóst er að hann gæti víða haft úr miklu að moða allan ársins hring.

Kristján Eiríksson íslenskufræðingur og Skagfirðingur, „rifjaði upp“ þessar vísur um Ruslagám, sem hann kvaðst hafa heyrt…

Fjórtándi er Ruslagámur
rosalega stór,
og maginn hans svo víður
sem veraldar sjór.

Best finnst honum eitur
og alls konar slor.
Þá kætist hann og stígur
sín kolefnisspor.

Reynið að sjá fyrir ykkur sveininn ógurlega og teiknið af honum mynd!

Hvers konar spor er kolefnisspor?