Votlendi

Héraðsvötn (SH).

Votlendi er af ýmsum toga. Til votlendis teljast t.d. ár, lækir, tjarnir, stöðuvötn og fjölbreyttar mýrar. Þetta er ákjósanlegt búsvæði fyrir fjölbreyttar lífverur.  (Fjörur og grunnsævi teljast líka til votlendis, en um það búsvæði er fjallað annars staðar.)

Ár

Almennt eru dragár minna frjósamar en lindár, enda hefur vatn lindánna seytlað um bergið og þaðan koma næringarefni. Þessi efni úr berginu (steinefni) eru áburður fyrir þörunga og plöntur, sem skilar sér svo til annarra lífvera.

Ár sem renna frá lífríkum stöðuvötnum eru sömuleiðis oft frjósamar. Gott dæmi er Myllulækur, en hann rennur úr Vatnshlíðarvatni.

Deildará (SH).

Sama áin getur verið frjósamari á einum stað en öðrum, t.d. þegar hún hefur runnið um gróskumikið land eða eftir að næringarríkari ár hafa runnið til hennar. Þannig geta dragár orðið bísna frjósamar. Gott dæmi er Húseyjarkvísl.

Jökulár eru almennt snauðar af næringarefnum og í þeim lítið líf. Þegar þær hafa farið um langan veg, m.a. um gróin svæði og í þær blandast næringarríkt ferskvatn verður staðan önnur. Héraðsvötn eru til dæmis lífrík þrátt fyrir að vera í grunninn jökulár.

Brasað í mýri
Að vori eða snemma að hausti er tilvalið að fara í könnunarleiðangur til að athuga lífríkið í mýri eða öðru votlendi. MUNIÐ AÐ FARA Í STÍGVÉL! 

  • Veltið fyrir ykkur muninum á gróðri sem vex í votlendi og þurrlendi. Hvað einkennir gróður votlendisins? Nefnið nokkrar tegundir votlendisplantna sem þið sjáið.
  • Sjáið þið fugla eða önnur stærri dýr í votlendinu? 
  • Takið sýni með skóflustungu og setjið í fötu. Þegar heim í skóla er komið skulið þið taka sýnið og setja á bakka ásamt vatni og leita að smádýrum.
    Ef mýrin er vel gróin gæti sýnið verið hálfgerð torfa. Setjið þá vatnslögg í fötuna, trekt undir torfuna og látið lampa lýsa á hana í 2-3 daga og sjáið hvort einhverjar pöddur skríði ekki ofan í fötuna. 

Á 
Veljið ykkur á í Skagafirði og aflið ykkur upplýsinga um hana. Þið getið ef til vill lesið ykkur til í árbókum Ferðafélags Íslands, í Byggðasögu Skagfirðinga, í gögnum frá Háskólanum á Hólum, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun eða fræðst af þeim sem eru kunnugir um ána. Farið að henni ef hægt er.

  • Hvað heitir áin?
  • Hvaðan rennur hún og hvar endar hún? 
  • Er foss í ánni? Rennur hún úr eða í stöðuvatn? 
  • Hvers konar á er um að ræða; dragá, lindá eða jökulá? Reynið að meta það útfrá útliti árinnar.  
  • Finnið loftmyndir af ánni (sjá Loftmyndir ehf).  
  • Hvernig er umhverfi árinnar? 
  • Lýsið botninum við árbakkann. Er hann grýttur, sendinn eða leirkenndur? 
  • Rannsakið lífríkið í ánni við bakkann og greinið skilmerkilega frá. Gott er að nota litla háfa, stinga þeim undir bakkann og þannig reyna að veiða dýr.
    • Er grjótið sleipt? – Þá eru líklega þörungar sem vaxa á því.
    • Sjáið þið aðrar plöntur? 
    • Finnið þið einhver smádýr? Ef eitthvað er um laust grjót athugið þá undir það.  
    • Sjást fiskar? 

Stöðuvatn (sama verkefni er á síðu um stöðuvötn)
Veljið ykkur vatn í Skagafirði og aflið ykkur upplýsinga um það. Þið getið ef til vill lesið ykkur til í árbókum Ferðafélags Íslands, í Byggðasögu Skagfirðinga, í gögnum frá Háskólanum á Hólum, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun eða fræðst af þeim sem eru kunnugir um vatnið. Farið að vatninu ef hægt er.  

  • Hvað heitir vatnið?
  • Hvar er það?
  • Hvað er það stórt?
  • Renna ár eða lækir í vatnið? Renna ár eða lækir úr vatninu?
  • Finnið loftmyndir af vatninu (sjá Loftmyndir ehf).  
  • Hvernig er umhverfi vatnsins? 
  • Er fiskur í vatninu? Sjáið þið fiska? 
  • Lýsið botninum við vatnsbakkann. Er hann grýttur, sendinn eða leirkenndur? 
  • Rannsakið lífríkið í vatninu við ströndina og greinið skilmerkilega frá. Gott er að nota litla háfa. 
    • Sjáið þið plöntur og þörunga?  
    • Getið þið veitt einhver smádýr? 
Slý við vatnsbakka (SH).