Það kom kuldakafli um daginn. Hann læddist aðeins aftan að okkur og við þurftum að gramsa eftir kuldagöllum og kuldaskóm. Við erum heppin að geta klædd af okkur kuldann.
Þessi fugl kunni líka að bregðast við kuldanum. Hann ýfði á sér fjaðrirnar til að mynda kyrran og einangrandi lofthjúp í kringum líkamann. Auk þess kom hann sér í skjól til þess að kaldir vindarnir kæmust síður að honum. Kannski fann hann einhver orkurík fræ og korn í grasinu.
Svartþröstur er ekki algengur í Skagafirði, en honum fer líklega fjölgandi. Einhverjir grónir Skagfirðingar ráku því upp stór augu þegar þeir horfðust í augu við hann þennan! Svartþröstur er staðfugl og er að verða algengur á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
Fuglinn á myndinni er kvenkyns svartþröstur. Þær eru svona brúnleitar. Karlfuglarnir eru hins vegar kolsvartir með fagurgulan gogg.
Í kuldatíð reynist oft erfitt fyrir fuglana að afla sér fæðu og er þá gott að vita til þess að fólk fóðri þá með feitmeti, korni, eplum, rúsínum eða öðrum ávöxtum.
- Kynnið ykkur það sem sagt er um svartþröst á Fuglavefnum. Berið saman fuglinn í Efra-Ási, á myndinni hér að ofan, og myndirnar sem sýndar eru á Fuglavefnum. Það er greinilegt að ískalt er hjá kellunni okkar!