Rætur plantna þurfa sitt súrefni. Í mjög blautu votlendi fyllir vatn holrúmin sem eru í jarðveginum og útilokar loftið. Gróður sem er að öllu leyti ofan í vatni þarf sömuleiðis sitt súrefni og koltvíoxíð. Plönturnar hafa aðlagast þessum aðstæðum á ýmsan hátt. Sumar eru með sérstakar loftæðar sem bera súrefni til rótanna. Þær sem eru neðan vatnsborðs hafa sumar mikið yfirborð til að geta numið nóg súrefni og koltvíoxíð úr vatninu og aðrar eru með loftmikil laufblöð sem fljóta á yfirborðinu og ná þannig til andrúmsloftsins án vandræða.
Við Héraðsvötn eru víðáttumiklar flæðimýrar eða flæðiengjar, þær mestu á landinu og þó víðar væri leitað. Flæðimýrar eru sérstakt búsvæði. Flæðimýrar eru meðfram ám og vötnum þar sem reglulega flæðir yfir og fíngerður framburður sest til. Þar verður rakt og oft mjög næringarefnaríkt umhverfi og mikil spretta. Gulstör einkennir flæðimýrar, en sú planta er sérstök fyrir það að vaxa aðeins á Íslandi og Færeyjum utan Norður-Ameríku. (Sjá nánar Héraðsvötn og Jökulsárnar.)
Flæðimýrar eru á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Flæðimýrar = flæðiengjar.
Lesa meira um votlendisgróður:
- Stefán Bergmann / Reynir Bjarnason. 1999. Lífríkið í fersku vatni. Námsgagnastofnun.
- Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun.
- Ágúst H. Bjarnason. 2015. Plöntuvefurinn. Menntamálastofnun.
Gróður votlendis
- Flæðimýrar eru líka kallaðar gulstararflóavist og má lesa um hana á vef Náttúrufræðistofnunar. Skoðið Íslandskortið sérstaklega.
- Flæðimýrar er gott beitarland. Hvers vegna ætli það sé?
- Skoðið þær votlendisplöntur sem sagt er frá á Plöntuvefnum.