Afsökunarbeiðni til fjallanna

Kæru fjöll,
fyrirgefið mér

ég gekk út með
hugann bundinn

við þyngdarstuðul 28,5,
hvort 30 hamborgarar séu nóg,
hvenær börnin læri að taka til,
að maðurinn minn hrjóti,
að ég komi engu í verk…

en þið hafið staðið þolinmóð
í rúm þúsund ár
hér yfir okkur smásálunum

mér láðist að lyfta höfði
láta augun
hvíla
í fegurð ykkar
og friði

Guðrún Helgadóttir 

Já, fólk hefur búið á Íslandi í meira en þúsund ár. Reynið að sjá fyrir ykkur hvað fjöllin sáu fyrir þann tíma.  

Guðrún Helgadóttir (1959) er aðfluttur Skagfirðingur sem býr í Hjaltadal og hefur starfað sem prófessor við Háskólann á Hólum.