Bláir eru dalir þínir

Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
– hvít eru tröf þeirra.

Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.

Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.

Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.

Hannes Pétursson
Ljóðið birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar í desember 1951.

tröf = kögur eða klútur sem vafið var um skautfald
huldur = náttúruvættur

Hannes fæddist á Sauðárkróki í desember 1931. Hann er eitt virtasta skáld Íslendinga og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar. Hannes hefur samið margar ljóðabækur en auk þess skrifað minningar úr Skagafirði og fróðleik ýmis konar. Rauðamyrkur er spennandi sakamálasaga sem gerðist í Hjaltadal. Hún er byggð á raunverulegum atburðum.

  • Lesið ljóðið hægt og teiknið upp í huganum mynd við hvert erindi. 
  • Byggð mín segir skáldið og því er ljóst að ljóðið fjallar um Skagafjörð. En hvað fleira rökstyður það?
  • Hvað var Hannes gamall sumarið 1951 þegar hann orti ljóðið?  
  • Lesið frétt um það þegar Hannes hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á Degi íslenskrar tungu árið 2012. Af hverju er Hannesi lýkt við brúarsmið?