Blönduhlíð

Hver gleymir bjarta Blönduhlíð
blámanum þinna fjalla?
Hver man ekki og þráir á sumrin síð
sólskinsblettina alla?
Hver vill ekki eiga vorin fríð
þar sem vötn þín að bökkum falla?

Friðrik Hansen

Þarna ávarpar skáldið Blönduhlíð og spyr hana: Hver gleymir blámanum þinna fjalla? Hafið þið talað við náttúruna? Ætli sé auðveldara að tala við dýr en fjöll? 

Friðrik Hansen (1891–1952) var Skagfirðingur og fæddur á Sauðá. Hann var kennari og vegavinnuverkstjóri á sumrin. Ljóðið er fengið af Kvæða og vísnasafni á Netinu. Þar má lesa meira um Friðrik.