Tíbrá frá Tindastóli
titrar um rastir þrjár;
margt sér á miðjum firði
Mælifellshnjúkur blár.
Þar rís Drangey úr djúpi,
dunar af fuglasöng
bjargið, og báðum megin
beljandi hvalaþröng.
Einn gengur hrútur í eynni,
Illugi Bjargi frá
dapur situr daga langa
dauðvona bróður hjá.
Jónas Hallgrímsson
(Kvæði og sögur. 1997. Mál og menning.)
Til skýringar:
Grettir Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði var útlagi og hann faldi sig í Drangey. Yngsti bróðir hans hét Illugi og var hjá honum. Grettis saga er ein af Íslendingasögunum.
Útskýrið orðin tíbrá, rastir (et. röst) og hvalaþröng. Allt eru þetta orð sem eiga við um fyrirbæri í náttúrunni. Hafið þið einhvern tíma séð þessi fyrirbæri?
Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var skáld en líka náttúrufræðingur. Það er góð blanda. Hann smíðaði mörg nýyrði og mörg þeirra tengjast hugðarefni skáldsins (skoða nýyrðin). Jónas fæddist á Hrauni í Öxnadal og ólst upp í dalnum. Þar er einstaklega fallegt og fjölbreytt náttúra. Haldið þið að það hafi haft áhrif á þroska hans og áhugamál? Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, er Dagur íslenskrar tungu.
Lesa meira á vef Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson.