Fiskar

Talið frá vinstri: urriðaseiði, bleikjuseiði og tvö laxseiði (SÓS).

Fjölbreytni og búsvæði 

Í Skagafirði má finna allar tegundir íslensku ferskvatnsfiskanna: hornsíli, ál, bleikju, urriða og lax. Þar hefur auk þess sést til flundru*. Tegundunum henta mismunandi aðstæður. Hornsíli eru í skurðum, tjörnum og vötnum. Í Skagafirði eru þau lítið eða ekki inn til landsins. Algengt er að sjá lax í ám sem eru frjósamar, hlýjar og straumharðar. Bleikjan ríkir í kaldari, næringarsnauðari og lygnari ám. Urriði lifir við aðstæður sem eru þarna mitt á milli. Bæði urriði og lax hrygna einungis í straumvatni en bleikja hrygnir ýmist í ám eða stöðuvötnum.

Fiskar hafa aðlagast aðstæðum, sem virðast ekki vera kjöraðstæður. Í Héraðsvötnum eru til dæmis sérstæðir laxastofnar sem aðlagast hafa jökulvatni í einni köldustu á landsins. Einnig er athyglisvert að sjá staðbundna bleikjustofna langt upp á hálendi, í um 800 m hæð, í Skagafjarðardölum. Það er sjaldgæft að sjá bleikju svo hátt. Sjóbleikja sést á svipuðum slóðum og er það ekki síður merkilegt. (Sjóbleikja lifir í sjó en kemur upp í árnar til að hrygna.)

Við getum strangt tiltekið séð alla ferskvatnsfiskana í stöðuvötnum, en það fer þó eftir aðstæðum. Lax og urriði eru til dæmis bara í þeim vötnum sem ár og lækir renna úr eða í því annars gætu þeir ekki hrygnt. Fiskgengt verður að vera alla leið til sjávar fyrir laxinn því hann gengur í sjó á vissu aldursskeiði.

Í Vatnshlíðarvatni lifir einungis bleikja. Tvö afbrigði eru af bleikju í vatninu.

Bleikjuafbrigðin tvö í Vatnshlíðarvatni (SSk).

Annað afbrigðið er ósköp venjuleg bleikja, sem verður meðalstór, er fremur rennileg og étur fjölbreytta fæðu. Svo er það hitt afbrigðið, sem stundum er kallað það brúna. Sú bleikja lifir nær eingöngu á krabbadýri sem nefnist kornáta. Kornátan lifir fyrst og fremst á botninum. Fiskar sem tilheyra brúna afbrigðinu eru mun minni og klunnalegri í vexti en hinir. Við getum sagt að brúna afbrigðið sé sérhæft. Líklega hefði þessi sérhæfing ekki komið til ef hornsíli væru í vatninu. Hornsíli éta nefnilega mikið af kornátu og ekki hefði verið nóg fyrir þau og bleikjuna.

Frá bleikjukynbótastöð Háskólans á Hólum (SH).

Í Ölvisvatni á Skaga er líka athyglisverð bleikja. Um og fyrir árið 1990 var leitað að bleikju víðs vegar um landið til að nota til kynbóta og í bleikjueldi á vegum Hólaskóla (nú Háskólans á Hólum). Reyndist bleikjan úr Ölvisvatni mjög heppileg meðal annars vegna þess hve vel hún óx, hvað hún var þykk og matarmikil og vegna þess hve hrogn hennar voru stór, en auðveldara er að koma seiðum úr stórum hrognum á legg. Helsti gallinn við Ölvisvatnsbleikjuna var ljós litur hennar. Ölvisvatnsbleikjan var sem sé notuð til bleikjukynbóta ásamt bleikju úr sjö öðrum vel völdum stofnum annars staðar að af landinu. Það er nauðsynlegt að hafa fjölbreytni því þá er hægt að ná fram ýmsum eftirsóttum eiginleikum fyrir eldi og komið er í veg fyrir skyldleikaræktun**. Uppruni eldisbleikjunnar á Hólum er að mestum hluta frá bleikjunni í Ölvisvatni. Sú bleikja sem ræktuð er í fiskeldisstöðvum á Íslandi er fengin úr kynbótaverkefninu á Hólum!

* Flundra er nýr landnemi hérlendis. Hún er flatfiskur og lifir með ströndum en gengur líka upp í ár og læki. Í október 2008 veiddist flundra í Miklavatni og er það líklega fyrsta dæmið um tegundina í Skagafirði svo vitað sé.


** Skyldleikaræktun: Skyldir einstaklingar hafa svipað erfðaefni. Fjölbreytni erfðaefnis skiptir máli upp á heilbrigði. Æxlun skyldra einstaklinga getur leitt af sér veikleika og stundum er talað um úrkynjun.

Atferli fiskseiða

Líffræðingar rannsaka atferli fiskseiða (SH).

Á árunum 2005-2008 var gerð rannsókn á atferli bleikju-, urriða- og laxaseiða í nokkrum ám í Skagafirði og skoðuð óðalshegðun. Fiskar helga sér nefnilega óðöl eins og ýmis önnur dýr. Fæðuöflun þessara fisktegunda fer að mestu fram innan óðalanna.

Óðal: svæði sem dýr helgar sér og ver fyrir öðrum einstaklingum af sömu tegund.

Ímyndið ykkur straumharða og næringarríka á annars vegar (dæmigerða laxá) og lygna og næringarsnauðari á hins vegar (dæmigerðari bleikjuá). Það kemur líklega ekki á óvart að bleikja í síðarnefndu ánni þarf að hreyfa sig meira í leit sinni að æti en laxinn í hinni ánni sem bíður átekta eftir næringu sem straumurinn færir honum. Rannsóknin sýndi að bleikja hreyfir sig einmitt mest, urriði minna og lax minnst. Munur á stærð óðala reyndist líka greinilegur. Bleikja helgar sér stærstu óðölin. Bæði lax og urriði vörðu óðöl sín af meiri hörku en bleikja.

Innan tegundanna má líka greina ólíkt atferli útfrá mismunandi aðstæðum. Þannig reyndust til dæmis bleikjur í Myllulæk helga sér mun minni óðöl en bleikjur í Deildará, en fæðuframboð í Myllulæk er meira en í Deildará. Að verja stórt óðal kostar orku og þegar hægt er að komast af með lítið óðal er það gert.

Aðlögun hornsíla

Hornsíli lifa ekki einungis í fersku vatni heldur einnig í sjó. Í Skagafirði var gerð merkileg rannsókn á aðlögun hornsíla að fersku vatni. Sjávarhornsíli voru veidd við Reykjanes og sett í stórar tunnur með sjó. Smátt og smátt var sjónum í tunnunum skipt út fyrir ferskt vatn og svo var hornsílunum sleppt í manngerða tjörn í Hjaltadal þar sem engin hornsíli voru fyrir. Fylgst var með hornsílunum og afkomendum þeirra. Útlit afkomendanna var annað en foreldranna og meira í áttina að útliti ferskvatnshornsíla. Strax eftir eitt ár voru breytingarnar greinilegar. Þróun hafði átt sér stað!

Lesa meira um fiska:

  • Reynir Bjarnason / Stefán Bergmann. 1999. Lífríkið í fersku vatni. Námsgagnastofnun. 
  • Sólrún Harðardóttir. 2010. Hornsíli. Námsgagnastofnun.

Fiskar

  • Setjið upplýsingar um dæmigerðar kjöraðstæður lax, urriða og bleikju fram í töflu.  
  • Lesið um íslensku ferskvatnsfiskana og skoðið myndir af þeim í bókinni Lífríkið í fersku vatni
  • [[]] Ef þið, eða einhver í fjölskyldunni, veiðið fisk í ferskvatni í Skagafirði sendið þá mynd með upplýsingum um fisktegund og veiðistað. 
  • Við hvaða ár og vötn í Skagafirði hafið þið séð veiðimenn? Hvaða tegundir ætli þeir veiði?
  • Í hvernig umhverfi lifir áll? Kynnið ykkur lífssögu hans.  

>>> SMÁDÝR >>>