Árnar bera með sér bergmylsnu og fer það eftir vatnsmagni og straumþunga hversu stóra steina eða grjót þær geta borið. Það grófasta rúllar með botninum en leir og aur berst með straumnum.
Þegar á kemur í minni halla minnkar straumurinn og um leið burðargetan. Þar sest því framburðurinn til og myndar grjót- og malareyrar. Framan við gil myndast aurkeila úr framburðinum.
Áin sjálf skiptir reglulega um farvegi á eyrunum og keilunni.
Frá síðasta jökulskeiði hafa Jökulsárnar í Skagafirði borið mikið fram og myndað undirlendi. Áður náði sjórinn langt inn í land. Á Borgarsandi og við Miklavatn má víða sjá gamla fjörukamba, en það eru mishæðir efst í fjöru úr lábörðum hnullungum sem brimið hleður upp.
Sauðárkrókur er að stórum hluta byggður á landi undir Nöfunum sem myndast hefur vegna framburðar Sauðár. Gönguskarðsá hefur einnig borið heilmikið fram og myndað Eyrina. Framan af rann Sauðá í gegnum þorpið en svo kom að því að henni var veitt sunnan við það.
Leið Sauðár
Skoðið á loftmynd (t.d. á map.is) leið Sauðár um Sauðárgil, meðfram Skagfirðingabraut, meðfram leikskólanum Ársölum og yfir í Tjörnina. Vatnið úr Tjörninni er síðan leitt yfir í Héraðsvötn og þar með til sjávar. Skoðið Sauðána einnig augliti til auglitis!
Grjót í fjöru
Hvað er hægt að lesa út úr þessari mynd varðandi a) framburð áa, b) eðli rauða steinsins og c) eitthvað annað?!