Fuglar

Spói (JÓH).

Í þurrlendi sjáum við m.a. vaðfugla. Þeir eru sem sagt ekki alltaf að vaða. Við eigum sérstakt orð yfir fugla sem algengt er að sjá í móa eða grónu bersvæði inn til landsins. Mófuglar! Þetta eru einkum vaðfuglar (t.d. heiðlóa, stelkur, spói, hrossagaukur og sandlóa) en einnig teljast rjúpa, kjói og nokkrar tegundir spörfugla (t.d. þúfutittlingur) til mófugla.

Við sjáum mikið af þessu liði í Skagafirði! Margir fuglanna eru farfuglar. Sumum tegundunum fer fækkandi í heiminum. Þrengt er að búsvæðum þeirra erlendis. Um leið verða búsvæðin á Íslandi enn mikilvægari, t.d. í Skagafirði. Íslendingar verða svo sannarlega að gæta þeirra.

Rjúpa

Íslenska rjúpan á uppruna sinn á Grænlandi og settist hér að við lok síðasta jökulskeiðs.

Rjúpan er staðfugl en fer þó á milli staða innanlands. Á haustin fer hún til fjalla og heldur sig þar fram á miðjan vetur þegar hún flýr óveður og kafsnjó og leitar aftur á láglendið. Síðla vetrar leitar hún enn til fjalla ef aðstæður leyfa. Karrarnir koma svo fyrstir í varplöndin, í síðustu viku aprílmánaðar, ennþá hvítir og með fagurrauða kamba. Kvenfuglarnir koma 2-3 vikum seinna.

Hvítar fjaðrir að vori… (SH).

Hvítir og tignarlegir stilla karrarnir sér upp á hól eða hæð, gæta óðalsins og auglýsa sjálfa sig. Þeir ganga í augun á kellunum. Fálkar sjá þá reyndar líka mjög vel. Aðalfæða fálka er rjúpa og á vormánuðum er meirihluti þeirra karrar. Það er áhættusamt að vera á biðilsbuxunum!

Samband fálka og rjúpu
Stofnstærð rjúpunnar sveiflast nokkuð reglulega. Mjög mikill munur er á fjölda þegar stofninn er í lágmarki og hámarki. Í bestu rjúpnaárum er fjöldi rjúpna að hausti yfir milljón en innan við tvö hundruð þúsund í þeim lökustu. Aðalfæða fálka er rjúpa. Stofnstærð fálka sveiflast í samræmi við rjúpnastofninn. Lesa meira á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Brandugla

Uglur eru fáliðaðar á Íslandi. Ekki er vitað hversu margar þær eru, en árið 1992 var giskað á 100-200 pör branduglu. Hér sjást líka snæuglur, sem eru annars algengar á heimskautasvæðum. Margt bendir til að branduglum fari fjölgandi og gæti það tengst því að músum hefur fjölgað með aukinni kornrækt og hlýnandi loftslagi. Mýs eru mikilvæg fæða fyrir uglur. Uglur sjást reglulega í Skagafirði. Það er gaman að fylgjast með þeim og horfast í augu við þær. Ekki er síst áhugavert að sjá ungana. Eggin klekjast á mismunandi tíma og því eru ungarnir misstórir. Þeir eru ekki beinlínis fimir og veltast um á þúfnakollum við hreiðrið.

Þúfutittlingur

Þúfutittlingur (JÓH).

Vissuð þið að þúfutittlingur er einn af algengustu fuglum landsins (500.000-1.000.000 varppör)? Hann er spörfugl og farfugl. Hann syngur vel og flýgur fjörlega svolítið út og suður, upp og niður. Oft fylgir hann hæðum og drögum í landslagi. Við ættum kannski að gefa þúfutittlingi meiri gaum og segja frá því í fréttunum þegar sést til þess fyrsta á hverju vori. Þúfutittlingur fer til sunnanverðrar Vestur-Evrópu og jafnvel Afríku á haustin.

Stari

Nú er stari sestur að á Króknum. Hann nam fyrst land hérlendis á Höfn í Hornafirði í kringum 1940. Starar náðu síðan almennilega fótfestu um 1960 í Reykjavík og hefur eftir það fjölgað og dreifst um landið. Starar eru mest áberandi í bæjum og þorpum. Þeir gera sér hreiður í húsum eða í klettum. Stari er spörfugl og náskyldur hrafni og krákum. Líkt og kráka getur hann hermt eftir.

Hrafn

Stærsti spörfuglinn hérlendis er hrafn. Rannsókn var gerð á fjölda hrafna og dreifingu þeirra á 9. áratugnum. Þá var metið að um 2000 varppör væru í landinu og um 4300 geldfuglar. Vísbendingar um fækkun urðu til þess að hrafn var settur á válista árið 2000. Margt bendir til að ástandið sé ekkert betra núna.

Hrafn dreifist um allt land fyrir utan hálendið og víðáttumikla sanda. Að jafnaði eru tvö til sex pör á hverjum 100 km2 á þeim svæðum þar sem þeir finnast á annað borð.  Ef einblínt er á kjörlendi hrafnsins sést að algengast er að á milli hrafnssetra séu 2-5 km. (Með setri er átt við hreiðrið og nánasta umhverfi þess, t.d. klettabelti eða gil). Þetta er samt svolítið misjafnt. Í Fljótshlíð er t.d. dæmi um hreiður með 400 m millibili. Og nú kemur skagfirska rúsínan í pylsuendanum: Í gljúfrunum þar sem Austari- og Vestari-Jökulsá koma saman og þar í kring er eitt þéttasta hrafnavarp sem vitað er um hérlendis!

Hrafnar helga sér oft óðöl við sveitabæi og halda sig þar líka yfir veturinn, enda oft einhverja fæðu að fá. Stundum er talað um bæjarhrafna. Þá er um að ræða par sem heldur öðrum hröfnum frá. Bændur líta oft með velþóknun á bæjarhrafnana og fóðra þá þegar hart er í ári.

Skógarfuglar

Glókollur (JÓH).

Ýmsir fuglar sækja í skóg og dettur ykkur kannski fyrst í hug skógarþröstur. Aðrir skógarfuglar sem oft sjást í Skagafirði eru auðnutittlingur og músarrindill. Þetta eru mjög litlir fuglar en enn minni fugl, glókollur er líka farinn að sjást og verpa á Íslandi, m.a. í Skagafirði. Hann sækir í barrtré og étur m.a. sitkalús. Fyrir tíma skógræktar hefði glókollur ekki þrifist á Íslandi.

Skógarfuglarnir sem hér hafa verið taldir upp eru allir spörfuglar. Auk þeirra gætum við séð rjúpu og uglu í skógi.

Lesa meira um fuglana

  • Sólrún Harðardóttir. 2012. Líf á landi. Námsgagnastofnun
  • Um rjúpur á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands
  • Jóhann Óli Hilmarsson og Sólrún Harðardóttir (Fróðleikur). 2007/2017. Fuglavefurinn.  Námsgagnastofnun / Menntamálastofnun.
  • Um glókoll á Vísindavefnum.

Sitthvað um fugla

  • Sjáið þið fyrir ykkur mófuglana sem nefndir eru hér að framan? Flettið þeim upp á Fuglavefnum til að fræðast meira um þá. 
  • Hafið sérstaklega auga með þúfutittlingi í umhverfi ykkar.
  • Hvaða hættur gætu steðjað að búsvæðum mófugla í Skagafirði?
  • Geta Íslendingar eitthvað gert til þess að búsvæði fugla erlendis séu ekki skemmd? 
  • Hvenær eru mestar og minnstu líkur á að sjá rjúpur á láglendi? 
  • Hvað vitið þið um stara?
  • Þekkið þið til bæjarhrafna og getið þið sagt frá þeim. Af hverju ætli bændum sé vel við bæjarhrafna?
  • Hafið þið séð laup (hrafnshreiður)? Lýsið laupi?
  • Spörfuglar eru sérstaklega lagaðir að lífi í skógi. Á hvaða hátt?
  • Á Íslandi eru hlutfallslega fáir spörfuglar í samanburði við önnur lönd. Hvaða skýring gæti verið á því? 

>>> GRÓÐUR >>>