Gamlar strendur

Nafirnar (SH).

Miklir jöklar eru þungir og þrýsta landinu niður á við. Við það færist ströndin ofar. Víða í Skagafirði má sjá merki um fornar strendur uppi á landi frá tímum jöklanna miklu.

Jökulá nokkur, á tíma síðasta jökulskeiðs, bar mikið efni með sér og settist framburðurinn til þegar út í sjó var komið. Smám saman mynduðust þar Nafirnar. Fyrst settist það þyngsta, þ.e. grjót, möl og sandur en grugg barst lengra út. Eftir því sem við bættist varð til land, eða óseyri. Á þessum tíma stóð sjórinn hátt og Nafirnar voru að miklu leyti ofan í sjónum! Á Vindheimamelum eru einnig áberandi óseyrar Svartár.

Klaufafróðleikur
Skörð, eða klaufir, ganga upp í Nafirnar. Þær heita talið frá suðri: Grjótklauf  (hún er grýtt), Grænaklauf (hún er vel gróin), Árbæjarklauf  (stundum einnig nefnd Hesthúsklauf ), Brennuklauf (nefnd eftir áramótabrennunum, sem voru staðsettar þar ofan við), Kirkjuklauf (upp  af kirkjunni), Smiðjuklauf (kennd við  járnsmiðju í grenndinni), Kristjánsklauf (nefnd eftir Kristjáni Gíslasyni kaupmanni) og nyrst Gránuklauf (kennd við  verslunarhús Gránufélagsins).

Á Skaga eru merki um strendur í 65 m hæð yfir sjó. Í vötnum, sem eru merkt með litlum punkti, voru teknir borkjarnar til að fá upplýsingar um umhverfið við lok síðasta jökulskeiðs. (ÓI)

Komið hefur í ljós að breytingar á sjávarstöðu voru hraðari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Það er talið tengjast því að jarðskorpan hér er bæði heit og þunn. Sýnt hefur verið fram á að fyrir rúmlega 10.000 árum hækkaði sjávarstaða á Skaga og svo aftur fyrir 9800 árum. Jökulskeiðinu lauk ekki í einu vetfangi. Jökullinn hopaði og stækkaði til skiptis áður en hlýskeiðið tók við.

[[]] Sjór fortíðar
Kynnið ykkur merki hærri sjávarstöðu í Skagafirði með því að fara á viðkomandi staði. Þið getið valið staði sem hér eru nefndir eða fengið ábendingar hjá kunnugum um slíka staði.

  • Hvað er það í umhverfinu sem bendir til að þangað hafi sjórinn náð í fyrndinni? 
  • Takið myndir af staðnum og útskýrið myndirnar. 
  • Áætlið fjarlægð staðarins til núverandi strandar.

Tengt efni
Sauðá myndaði svæðið framan við Nafirnar með framburði sínum. >>>