Við eldgos kemur hraun, lofttegundir og gjóska upp úr jörðinni.
Kvikuslettur sem þeytast upp úr gígnum eru kallaðar gjóska. Hún er flokkuð eftir stærð í ösku, vikur og hraunkúlur. Askan er fíngerðust og léttust og berst hátt upp í loftið og getur farið um langan veg með vindum. Aska úr Eyjafjallajökli barst til dæmis austur um Evrópu vorið 2010 og truflaði meðal annars flug.
Jarðfræðingar kortleggja hvernig aska dreifist. Á myndinni sést hvar aska féll frá gosi í Heklu árið 1104. Skagfirðingar hafa greinilega orðið varir við það.
Auðvelt er að skoða jarðlög og þar á meðal öskulög í skurðum, rofnum árbökkum og rofabörðum. Elstu lögin eru neðst og yngstu efst. Þekkja má öskulög í sundur út frá útliti og efnasamsetningu. Svarta lagið á ljósmyndinni er sérlega áhugavert og er óvenjulega þykkt svo langt frá virkum eldstöðvum (um 20 cm). Það er kallað Saksunarvatnsgjóskan eftir vatni í Færeyjum þar sem þessi gjóska fannst fyrst. Líklegt þykir að gjóskan hafi komið upp í gríðarlegu eldgosi eða eldgosum í Grímsvötnum við lok síðasta jökulskeiðs. Hún hefur verið aldursgreind 10.200 ára.
Öskulög og fornleifarannsóknir
Aska úr Heklu frá 1104 hefur hjálpað fornleifafræðingum að aldursgreina fornleifar. Það sem er undir öskunni hlýtur að vera frá því fyrir 1104. Ýmsar fornleifarannsóknir hafa farið fram víðs vegar um Skagafjörð. Ætli öskulagið frá 1104 komi við sögu í þeim? Þið ættuð að kanna málið.