Gróður hafsins og hryggleysingjar

Skúfþang og klettadoppa – ef vel er gáð (SH).

Þörungar eru gróður hafsins. Allir þörungarnir ljóstillífa, hvort sem þeir eru grænir, brúnir, gulleitir eða rauðir. Brúnþörungar eru stærstir og flokkast í þang og þara. Í sandi eða möl sem fer af stað við öldugang nær þang og þari ekki fótfestu.

Í fjörum eru alls konar hryggleysingjar sem áhugavert er að skoða. Gott er að hafa Greiningarlykil um smádýr við hendina. Stundum sjáum við bara leifar dauðra dýra svo sem skeljar og krabba. Líklega getum við séð þangflugur eða lirfur þeirra þar sem þang er að finna, hrúðurkarla á klettum, kuðunga og skeljar, marflær, orma, kannski ígulker og krossfiska. Þannig mætti halda áfram. Ofan í sandi eru ógrynni smásærra lífvera.

Fuglarnir éta þessar lífverur fjörunnar. Hver fuglategund á yfirleitt sitt eftirlæti.

Á vef Náttúrufræðistofnunar má sjá hvernig fjörur allt í kringum landið hafa verið flokkaðar. Til að komast að þessum upplýsingum þarf að 1) fara inn á kort Náttúrufræðistofnunar, 2) velja því næst kortaþekjur og fjörur og 3) skýringar. Því næst er þysjað inn á Skagafjörð. Litir segja til um fjöruflokkun og til að vita nánar um þessa flokka má smella á staðinn og fara á staðreyndasíðu.

Athuganir í fjöruferð

  • Veltið fyrir ykkur hvernig þörungar fjörunnar eru aðlagaðir að umhverfi sínu. Hvað einkennir umhverfið og útlit þörunganna í því samhengi?
  • Kannið hvort þið finnið hryggleysingja inn á milli í þanginu og skoðið þá. 
  • Veltið við steinum og leitið að marflóm, ormum og fleiri dýrum. 
  • Skoðið sérstaklega lífið í fjörupollum. 
  • Skoðið hrúðurkarla. Ef þið sjáið hrúðurkarl í fjörupolli sjáið þið hann kannski kasta út veiðineti sínu. 

Lesa meira: 

  • Sólrún Harðardóttir. 2005. Lífríkið í sjó. Námsgagnastofnun.
  • Karl Gunnarsson og Þórir Haraldsson. 2010. Fjaran og hafið. Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun.
  • Hrefna Sigurjónsdóttir og Snorri Sigurðsson. 2008. Greiningarlyklar um smádýr. Námsgagnastofnun.
  • Agnar Ingólfsson, Hrefna Sigurjónsdóttir og Karl Gunnarsson. 1986. Fjörulíf. Ferðafélag Íslands.
  • Agnar Ingólfsson. 1990. Íslenskar fjörur. Bjallan.
  • Guðmundur P. Ólafsson. 1986. Algeng fjörudýr. Námsgagnastofnun.

>>> HVÍTABIRNIR >>>