Heitar laugar

Ferðamenn í fótabaði í Fosslaug.
Ferðamenn í fótabaði í Fosslaug.

Heitar laugar hafa verið nýttar til baða um aldir.

Grettislaug
Grettislaug er nefnd eftir Gretti Ásmundarsyni, aðalsöguhetjunni í Grettis sögu sem er ein af Íslendingasögunum. Um tíma hafðist Grettir við í Drangey. Sagt er að eitt sinn hafi eldurinn slokknað í Drangey og ekki var hægt að sjóða mat. Grettir synti þá til lands og kom að landi á Reykjum á Reykjaströnd. Honum var vissulega kalt og hlýjaði sér í heitri laug á Reykjum, sem fékk síðar nafnið Grettislaug. Bóndinn á bænum gaf honum eld og sigldi með kappann og eldinn aftur út í eyna á bát!

Biskupalaug
Sagt er að biskupar og höfðingjar á Hólum í Hjaltadal hafi notað Biskupalaug sem er á Reykjum í Hjaltadal í gegnum aldirnar. Þar var einnig önnur og stærri laug, Hjúalaug. Því miður eru þessar laugar ekki svipur hjá sjón og hafa framkvæmdir og borun eftir heitu vatni í næsta nágrenni haft áhrif þar á.

Fosslaug
Gegnt Reykjafossi steinsnar frá Vindheimamelum er Fosslaug. Hún er tiltölulega ný, en hlaðin upp í stað sögufrægrar laugar, Reykjalaugar sem kemur fyrir í Sturlungu. Upprunaleg laug er nú of heit til að baða sig í.

Fleiri laugar?
Þekkið þið fleiri náttúrulegar heitar laugar í Skagafirði? Þið megið láta vita, nema um sé að ræða leynilaugar!