Á Hraunum í Fljótum er sérstakt og fjölbreytt landslag. Fjölbreytni gróðurs er hvergi meiri í Skagafirði en einmitt þar og þó víðar væri leitað. Þar eru há fjöll en líka láglendi. Þar hafa fallið skriður úr fjöllum og eru þær víða stórgrýttar, þar eru dældir og mikið um tjarnir. Þar er stutt til sjávar. Á Hraunum í Fljótum vaxa margar sjaldgæfar plöntur, að minnsta kosti sjö tegundir vaxa á Hraunum eða í næsta nágrenni sem ekki hafa fundist annars staðar í Skagafirði.
Hraun er ysti bærinn í Skagafirði að austan. Ysti bærinn að vestan heitir líka Hraun og er gjarnan talað um hann sem Hraun á Skaga. Hraun er haft í eintölu á Skaga en í fleirtölu í Fljótum. Fljótafjölskyldan er því frá Hraunum, en fjölskyldan á Skaga frá Hrauni!