Júnínætur

Júnínætur bera
ljósið

himnaljósið mjúka

. . . og ljósið
smýgur inn í mann
eins og fiskur gegnum vatn

spriklar þar
líkt og nýrunninn
lax í neti
sleppur út aftur
undir morgun . . .

Eftir situr silfurhreistur
í hjartamöskvunum

Og þú leggur netin næstu nótt

Eyþór Árnason

Til umhugsunar

  • Hvað þýðir orðið nót og hvernig er það í fleirtölu? Tengist þessi spurning ljóðinu!? 
  • Hvernig tilfinning ætli sé að vera með silfurhreistur í hjartamöskvunum? 

Eyþór Árnason (1954) er leikari og skáld. Hann er frá bænum Uppsölum í Blönduhlíð. Ljóðið er úr fyrstu ljóðabók hans Hundgá úr næstu sveit en fyrir hana fékk Eyþór Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.