Heima

Húmið á landið aðeins tánum tyllir,
titrar á öldum glit frá mánaskini.
Er sem mér berist boð frá horfnum vini,
blíðróma minning hjartað löngun fyllir.

Skrjáfar í laufi léttur goluþytur,
lyngmóinn hlustar eftir kunnum rómi,
ilmurinn berst frá litlu lautarblómi,
lækur í nálægð milda söngva flytur.

Hljóðláta nótt, frá helgilindum þínum
heilnæman kraft ég finn um brjóst mitt streyma.
Langt er nú síðan hjá þér átti ég heima.
Hér sleit ég fyrstu æskuskónum mínum.

Ólína Jónasdóttir 

Lesið ljóðið og lesið út úr því hvað eftirfarandi náttúrufyrirbæri gera: húmið, glit frá mánaskini, goluþytur, lyngmóinn, lautarblóm og lækur. Skiljið þið orðin? 

Hvar slituð þið fyrstu æskuskónum ykkar?!  

Ólína Jónasdóttir (1885-1956) var fædd á Silfrastöðum en bjó um ævina víða í Skagafirði. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum. Lesa um Ólínu á vefnum skáld.is.

Ljóðið er fengið af óðfræðivefnum Braga