Myndun og mótun

Umhverfið í Skagafirði hefur ekki alltaf litið eins út. Jarðsaga Íslands, og þar með Skagafjarðar, teygir sig langt aftur í tímann. Aðalpersónurnar, eða meginöflin, í þessari sögu eru:

LANDREK
Ysta lag jarðar kallast jarðskorpa. Hún er úr gríðarstórum flekum sem hreyfast, sundur eða saman, eða samsíða í gagnstæða átt. Hreyfingarnar nefnast landrek. Á flekamótum verða jarðskjálftar og eldgos. Ísland er einmitt á mörkum jarðskorpufleka sem rekur í sundur. Þar er neðansjávarhryggur, Atlantshafshryggurinn.

Vegna allra þessara jarðskorpuhreyfinga hafa meginlöndin tekið miklum breytingum í tímans rás. Einu sinni var ekkert Atlantshaf og Noregur og Grænland náðu saman. Lengi vel var landbrú á milli Grænlands, Íslands og Færeyja!

flekar
Jarðskorpuflekar. Hver fleki hefur sinn lit og löndin, sem þar eru, aðeins ljósari lit. Smellið á myndina til að stækka hana. (Wikimedia Commons)
atlantshaf_ngsgk
Atlantshafshryggurinn er á mörkum tveggja jarðskorpufleka (GK-vefur).

Landrek og flekar

  • Hvað heita flekarnir tveir sem Ísland er á?
  • Sagt er að landrekið sé að meðaltali um 1 cm á ári í hvora átt útfrá Atlantshafshryggnum. Setjið niður punkta sem sýna hvað landrekið er mikið á meðalævi manns. Hvað hefur rekið verið mikið frá landnámi?
  • Rifjið upp stóra jarðskjálfta erlendis. Staðsetjið þá á korti og athugið hvort þeir hafi orðið á flekamótum. 

ELDVIRKNI

Skýr jarðlög í fjöllóttum Kolbeinsdal (SH).

Á tímabili jarðsögunnar, sem hófst fyrir rúmlega 23 milljónum ára, hlóðust upp hraunlög á Íslandi við endurtekin eldgos. Algengast er að þau séu 5-15 m að þykkt. Talað er um þessi lög sem blágrýtismyndunina. Jarðlög af þessu tagi ná yfir stærstan hluta Skagafjarðar og eru þau þriggja til tólf milljón ára gömul. Jarðlagastaflinn varð til á fornum gosbeltum en er tímar liðu rak hann smám saman frá þeim vegna landreks. Gosbeltið sem mest kvað að var við Vatnsnes við Húnaflóa.

Eftir að dró úr eldvirkni var stór háslétta á svæðinu. Síðar urðu til dalir vegna áhrifa vatns og jökla. Enn má þó sjá leifar hásléttunnar í hæstu fjöllum Tröllaskagans sem mörg hver eru flöt að ofan.

Millilög
Inni á milli hraunlaganna má víða sjá annars konar lög sem eru yfirleitt rauðleit, leirkennd og fremur þunn (< 1m). Þegar jarðlagastaflinn var að hlaðast upp urðu stundum hlé á milli gosa og þá fór gras að gróa og jarðvegur myndaðist. Síðan lagðist næsta hraunlag yfir. Þá myndaðist fagurlitað millilag úr jarðvegi og gróðri. Jarðvegssýrur orsaka litinn.

Náman, þaðan sem sem byggingarefni í Hóladómkirkju var fengið (SH).

Þykkt rautt lag er áberandi í Hólabyrðu og var notað sem byggingarefni í Hóladómkirkju. Um er að ræða gjósku sem komið hefur upp í stórgosi í nálægu eldfjalli fyrir um 10 milljónum ára og síðan runnið saman í þetta rauða berg.

Elsta bergið sem fundist hefur á Íslandi er um 16 milljón ára gamalt. Það er á Austfjörðum og Vestfjörðum, eins fjarri flekaskilunum og hægt er. Elstu berglög á Norðurlandi eru um 12 milljón ára gömul.

Heitur reitur
Ísland er á heitum reit, svæði þar sem eldvirkni er óvenju mikil. Þar verða því oftar eldgos og hraun hlaðast upp. Vegna heita reitsins stendur Ísland hærra en aðrir hlutar Atlantshafshryggjarins.

Jarðlög

  • [[]] Í fjöllum og giljum sjáum við þvert á jarðlagastaflann. Það má líkja staflanum við marglaga köku! Takið ljósmyndir af jarðlögum. 
    • Hvað eru hraunlögin mörg í staflanum sem þið myndið? Sjást þar millilög?
    • Eru lögin og millilögin misþykk? Hvað getur það sagt ykkur ef millilag er þykkt? En ef hraunlag er þykkt?

ÍSÖLD
Ísaldir eru tímabil þegar jöklar eru útbreiddir á jörðinni. Slík tímabil geta staðið í milljónir ára. Á ísöld skiptast á hlýskeið og jökulskeið. Fyrir um tíu til tólf þúsund árum lauk síðasta jökulskeiði og nú er hlýskeið.

jokulskeid
Myndin sýnir ís og jökla við hámark síðasta jökulskeiðs (HB).

Núverandi ísöld hófst fyrir um 2,6 milljónum ára. Bergið í jarðlagastaflanum hafði þá þést, ár höfðu myndað farvegi og grafið út dali og setlög hlóðust upp. Ísaldarjökullinn fyllti upp í dalina, skóf, raspaði og sópaði með sér jarðefnum. Þegar jökullinn hörfaði skildi hann eftir urð og grjót ásamt jökulsorfnum dölum (U-laga) og djúpum fjörðum.

Á myndinni má sjá V-laga dali sem ár hafa grafið. Síðan fyllir jökull dalina. Jöklar sverfa mun stærri flöt en ár. Þá verða dalirnir U-laga. (Cecilia Bernal – Wikimedia Commons)

Á jökulskeiðum rann meginjökull út í Skagafjörð, en hliðarjöklar runnu til hans. Stærstu hliðarjöklarnir sem runnu til meginjökulsins skófu Norðurárdal, Hjaltadal, Kolbeinsdal, Deildardal, Unadal og Fljót.

Meira um ísaldarjökulinn og áhrif hans á landslagið.

Fornir jöklar

  • Horfið í kringum ykkur og íhugið hvernig ísaldarjökullinn mótaði landið. 
  • Skoðið vel hnattmyndina. Hversu langt suður í Evrópu og í Bandaríkjunum náði jökullinn? Hvernig var staðan á Bretlandi og í Japan? 

SJÁVARSTAÐA
Því meiri sem jöklar eru þeim mun minna vatn er í sjónum og sjávarborð verður að meðaltali lægra í heiminum. Taka verður þó með í reikninginn að jökullinn sjálfur er þungur og þrýstir landinu niður. Þar sem er þykkur jökull hækkar því sjávarstaðan. Þannig var það á Íslandi á jökulskeiði.

Hér sést hvernig ströndin leit að öllum líkindum út í Skagafirði þegar sjávarmörkin voru hæst. Þá var Skagafjörður mestur fjarða. (GG-GPÓ).

Þegar jöklar hopuðu og ísinn bráðnaði hækkaði aftur í sjónum, en það tók landið nokkurn tíma að rísa. Í þessu millibilsástandi varð sjávarstaðan hæst, sbr. kortið.

Nánar um flakkandi sjávarstrendur.

Sjávarstaða og jöklar

  • Skoðið kortið og takið eftir að Hegranes er eyja, Þórðarhöfði er ekki landfastur og sjór nær langleiðina að Mælifelli.
  • Eigið þið heima á gömlum sjávarbotni?
  • Teiknið einfalda skýringarmynd sem útskýrir sjávarstöðu a) á jökulskeiði, b) stuttu eftir jökulskeið og c) í nútíma.

Tengt efni:

  • Helgi Grímsson. 2014. Auðvitað – Jörð í alheimi. Námsgagnastofnun.
  • Oddur Sigurðsson. 2013. Jarðfræðivefurinn. Námsgagnastofnun. 
  • Snæbjörn Guðmundsson. 2015. Vegvísir um jarðfræði Íslands (Myndun Íslands bls. 10-16). Mál og menning.