Óskasteinninn í Tindastól

Einu sinni var ung stúlka á gangi í góðu veðri í fjallinu Tindastól og fann stein einn fallegan. Hún tók upp steininn og óskaði sér að hún væri komin í þá bestu veislu sem haldin væri í heiminum.

Hún hvarf þá allt í einu eitthvað út í veðrið og vissi ekki fyrr en hún stóð í dýrðlegri höll og hafði hún aldrei áður séð aðra eins prýði. Maður kom inn til hennar með stóran gullbikar í hendi og rétti henni. Hún tók við bikarnum, en varð svo hrædd af öllu sem hún hafði séð að hún óskaði sér að hún stæði á sama stað og áður í Tindastól og varð það líka. Fleygði hún þá steininum góða og hélt heim með bikarinn.

Þessi bikar þótti mikil gersemi og var farið með hann til prestsins, en hann vissi ekki til hvers ætti að nota hann. Var þá bikarinn sendur konungi og gaf hann ungu stúlkunni þrjár jarðir í sveitinni fyrir bikarinn góða.

Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I. Safnað hefur Jón Árnason.