Sjávarborg er bær rétt innan við Sauðárkrók sem stendur á klettaborg sem rís upp úr sléttlendinu austan við Áshildarholtsvatn. Þetta er sérstakt og áberandi bæjarstæði og þar er gömul kirkja. Yfirborð klettaborgarinnar ber merki ísaldarjökulsins. Gott útsýni er af Sjávarborg og svo er mjög gaman að fylgjast með fuglalífinu þaðan. Fuglahúsi hefur verið komið fyrir við Áshildarholtsvatn (nálægt bænum) þaðan sem gott er að fylgjast með fuglunum á vatninu.