Á nokkrum stöðum í Skagafirði má sjá tilkomumikið stuðlaberg. Lýsa mætti því sem sexhyrndum súlum sem standa þétt saman.
Þessar súlur, eða stuðlar, myndast þegar kyrr bergkvika kólnar. Þá dregst hún svolítið saman og klofnar í sexhyrnd form. Klofnunin byrjar þar sem kólnunin er mest og heldur svo áfram eftir því sem bergkvikan kólnar. Smám saman myndast stuðlarnir.
Stuðlarnir standa ávallt hornréttir á kólnunarflötinn.
Þegar bergkvika er umflotin vatni eða sjó getur kólnunarflöturinn verið óskýr og stuðlarnir verða óreglulegir. Svo langt getur þetta gengið að við sjáum ekki eiginlega stuðla heldur frekar kubba og kubbaberg.
Í brúnum Tinnárhnjúks er eitthvert það fegursta stuðlaberg á landi hér segir í Árbók Ferðafélags Íslands – 2014. Kannski farið þið þangað einhvern tímann?
Rannsókn á stuðlabergi
- Skoðið stuðlaberg og athugið sérstaklega mynstur þess og lögun. Eru stuðlarnir alltaf sexhyrndir?
- Teiknið nokkra stuðla og mælið eða áætlið hæð þeirra, mælið ummál og þvermál.
- Sjáið þið einhverjar lífverur í og við stuðlabergið? Hvaða?
- [[]] Takið myndir af stuðlabergi sem ykkur þykir fallegt. Íhugið hvar kólnunarflötur þess hefur verið.