Stundum er sagt að við höfum jörðina að láni frá komandi kynslóðum. Þegar eitthvað er fengið að láni ber að skila því í sama ástandi, ef ekki betra.
Frá náttúrunni fáum við allt, til dæmis mat, efni í föt og efni í hús svo byrjað sé á því nauðsynlega, en halda mætti lengi áfram. Stundum er það sem við fáum frá náttúrunni notað nánast beint, svo sem fiskurinn sem veiddur er. Annað þarf að fara í gegnum langan vinnsluferil og má þar til dæmis nefna plastílát sem unnin eru úr jarðolíu. Við tölum um það sem við nýtum í og úr náttúrunni sem náttúruauðlindir. Maðurinn er hluti af náttúrunni og líkt og dýrin þurfum við að koma okkur fyrir í henni og hafa nóg að bíta og brenna.
Auðlindirnar eru ekki óþrjótandi. Ef við sóum eða spillum útilokum við möguleika fólks í framtíðinni til að njóta náttúrugæða. Sömuleiðis getur maðurinn með hegðun sinni breytt lífslíkum annarra lífvera á jörðinni.
Sjálfbærni
Markmið sjálfbærrar þróunar er að fólk leitist við að uppfylla þarfir sínar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama. Sjálfbærni og þróun í átt til sjálfbærni tekur ekki einungis til náttúrugæða, heldur einnig til efnahags og þess hvernig lifað er í samfélagi við annað fólk. Fólk verður sífellt meðvitaðra um mikilvægi þess að lifa í betri sátt við umhverfið.
>>> VÁLISTAR OG FRIÐUN SVÆÐA >>>
Náttúruvernd
Náttúruvernd og umgengni
Verkefnið tengist öllum síðunum undir Umgengni.
- Skráið hjá ykkur dæmi um hvað þið sjálf gerið sem er umhverfisvænt?
- Ræðið í litlum hópum og síðan með bekknum í heild sinni, hvað hægt er að gera til að vernda náttúruna. Skráið, en skiljið eftir pláss fyrir fleiri hugmyndir sem kunna að koma fram síðar.
- Flokkið hugmyndirnar útfrá því hverjir ættu að framkvæma þær (d. einstaklingar, skóli, sveitarfélög, fyrirtæki, þjóðir eða mannkynið í sameiningu).
- Hvernig getur hugtakið sjálfbærni hjálpað til í þessum aðgerðum?
- Sjáið þið dæmi um slæma umgengni við náttúruna í Skagafirði? Hvað væri hægt að gera til úrbóta?
- Vitið þið um dæmi þar sem þegar hefur verið brugðist við einhverju sem betur mátti fara?
- Sveitarfélagið Skagafjörður tekur við flokkuðu sorpi frá þéttbýlisstöðum. Kynnið ykkur það.
- Á vef Flokku er því svarað af hverju er verið að flokka sorp. Lesið það!
- Maðurinn er hluti af náttúrunni. Hvers vegna er meðvitund um það mikilvæg?
- Kynnið ykkur lífverur á válista.
- Fyrir hverju ætli svæði séu friðuð?
- Skoðið útbreiðslu skógarkerfils og alaskalúpínu á Íslandskortinu á Flóru Íslands vefnum.
- Af hverju er minkur veiddur?
- Hugsið um alls konar atvinnu og starfsemi. Er þar verið að nýta náttúruna og ef svo er, er það gert á sjálfbæran hátt eða mætti gera það á sjálfbæran hátt?
- Stundum er talað um að orka sem framleidd er með virkjun fallvatna sé græn orka. Hvað er átt við með því? Er það rétt?
- Hvernig virka túrbínur í vatnsaflsvirkjunum?
- 80% þess rafmagns sem framleitt er á Íslandi er nýtt í stóriðju. Hvað er stóriðja?