Myndin sýnir meðalúrkomu ársins á árunum 1971-2000.
Takið eftir hvað úrkoman er lítil í meginhéraði Skagafjarðar, Skagafjarðardalnum. Mesta úrkoman er upp til fjalla og í Fljótum. Úrkoma á annesjum er meiri en inn til dala.
Á láglendi snjóar mest í Fljótum. Þar er oft snjór fram á sumar. Í dölum við austanverðan Skagafjörð er skjólsælt og þar safnast gjarnan mikill snjór. Á vorin er þurrasti tíminn. Það getur komið sér illa fyrir grassprettu.
Mesta úrkoma sem mælst hefur í Skagafirði er 91,3 mm á sólarhring og var það 10. ágúst 1982 við Skeiðsfoss í Fljótum.
Mesta snjódýpt sem mælst hefur í Skagafirði, og reyndar á landinu öllu, er 279 cm, 19. mars 1995 og var það einnig við Skeiðsfoss í Fljótum. Vá!
Snjóflóð
Þegar snjófarg rennur niður brekku er talað um snjóflóð. Hætta á snjóflóðum er mest þegar blautum snjó kyngir niður á frosinn snjó sem fyrir er í fjallshlíð. Nýja snjóalagið binst ekki þeim snjó sem fyrir er og rennur því af stað þegar nógu mikið er komið. Á vef Veðurstofunnar er fróðleikur um snjóflóð. Þar er t.d. hægt að sjá á Íslandskorti hvar síðustu snjóflóð urðu og eins er sérstök ofanflóðasjá sem sýnir mörk snjóflóða sem vitað er til að hafi fallið. Skoða vef Veðurstofunnar.