Fuglar votlendis

Við getum séð fugla á sundi á ám, tjörnum og vötnum, aðrir spígspora á sínum löngu leggjum í bleytunni, sumir fela sig í sefi og öðrum hávöxnum gróðri sem vex upp úr votlendinu….

Álftir

Álftafjölskylda (JÓH).

Á þrettán ára tímabili (1988-2000) voru álftir sérstaklega rannsakaðar í Skagafirði. Álftir helga sér óðal og var fylgst með fuglum á 83 óðölum af 125 sem eru þekkt. Margt forvitnilegt kom fram.

Óðölin voru greinilega misjafnlega eftirsótt. Sum þeirra eru mikið setin (notuð) og önnur minna. Um þriðjungur (31%) óðala í rannsókninni voru setin allan tímann og annað eins hlutfall óðala var setið í þrjú ár eða minna. Að meðaltali voru óðölin sem fylgst var með nýtt í 7,4 ár. Á eftirsóttu óðölunum gekk mun betur að koma upp ungum.

Sumir halda að sama álftaparið komi alltaf aftur og aftur á sama staðinn til að verpa. Rannsóknin í Skagafirði sýndi að aðeins eitt par verpti öll 13 árin á sama óðalinu og að 35% para væru einungis eitt ár á tilteknu óðali. Á vinsælum óðölum voru líkurnar meiri á að sjá sama parið aftur og aftur en á hinum sem ekki voru eftirsótt.

Ekki er fullkomlega vitað hvað gerir óðöl eftirsótt en ef mikið vatn og frjósamar tjarnir er að finna á svæðinu, helst með fergini, er það jákvætt. Nánd við næsta hreiður virðist ekki skipta máli.

Endur 

Í Skagafirði eru margs konar endur og einnig margar endur! Víða eru búsvæði við þeirra hæfi. Miklavatn og nágrenni þess er stærst þessara svæða. Kannist þið við skúfönd, duggönd, grafönd, rauðhöfðaönd, stokkönd, urtönd, toppönd, skeiðönd og hávellu? Þetta eru endur sem vísindamenn greindu og töldu á vatninu einn júnímorgun fyrir nokkrum árum. Þær eru hér taldar upp eftir fjölda. Mest er af skúfönd en minnst af skeiðönd og hávellu á Miklavatni.

Endurnar, aðrar en ungamömmurnar, safnast saman á miðjum útungunartímanum á fellistöðvum og endurnýja þar fjaðrirnar. Á meðan geta endurnar ekki flogið. Ungamæðurnar fella ekki flugfjaðrir fyrr en eftir að þær yfirgefa ungana. Á Höfðavatni er einn helsti fjaðrafellistaður dugganda á landinu. Skúfendur og toppendur fella þar einnig fjaðrir.

  • Skoðið endur á fuglavefnum. Hvað eiga endur sameiginlegt? Lesið um hvernig ólíkir goggar og líkamsbygging endurspegla ólíka lifnaðarhætti og fæðu. Endur flokkast í buslendur og kafendur. Útskýrið hvað felst í þeirri flokkun. 
  • Teiknið ykkar eigin önd eins og þið væruð skaparar náttúrunnar! Gefið henni líka heiti. 
  • Hvar hafið þið séð endur í Skagafirði? Hvenær ársins var það? Vitið þið hvaða tegundir þið sáuð?
  • Hafið augun opin fyrir öndum, á þeim árstíma sem líklegt er að sjá þær. Hvaða tegundir sjáið þið og hvar sjáið þið þær? Hvað eru endurnar að gera? 

Helsingjar 

Helsingjar (KG).

Ísland er mikilvægur viðkomustaður farfugla á leið milli vetrarstöðva í Evrópu og varpstöðva á Grænlandi og í Kanada. Fuglar sem koma við á Íslandi á lengri leið sinni eru nefndir umferðarfarfuglar. Helsingjar eru sérstaklega áberandi í Skagafirði og Húnavatnssýslum á vorin en þeir dvelja hér í um 3-4 vikur á leið sinni til Austur-Grænlands frá Bretlandseyjum. Á haustin millilenda þeir á suðausturhluta landsins. Álitið er að sjö af hverjum tíu helsingjum Austur-Grænlandsstofnsins dvelji í Skagafirði eða í Húnavatnssýslu á vorin. Í stofninum voru taldir 80.700 fuglar árið 2013.

Fuglarnir safna orku á Íslandi áður en þeir halda för sinni áfram. Mikilvægt er að hafa næga orku til flugsins en einnig fyrir varpið, en sýnt hefur verið fram á að kvenfuglar í góðum holdum ná betri árangri hvað varp varðar. Helsingjar eru grasbítar og halda sig einkum á túnum í nánd við vatn.

Flórgoði 

Garðsvatn (SH).

Flórgoði er fremur sjaldgæfur fugl, en honum fer fjölgandi. Hann er algengur í Hegranesi (t.d. við Garðsvatn og Svanavatn) og í Eylendinu almennt. Höfuðstöðvar hans á Íslandi eru annars við Mývatn. Fuglinn gerir sér hreiður í sefi. Mikilvæg fæða hans er hornsíli.

Flórgoði er af goðaætt. Hann er ekki önd eins og sumir halda. Eitt af því sem er sérstakt við goða eru fæturnir. Þeir hafa blöðkur á hverri tá. Þetta gerir þá einkar góða sundfugla en þeim mun verri til gangs. Flórgoðar eru og lélegir í flugtaki og lendingu!

Flórgoðar að para sig (JÓH).

Sérstaklega gaman er að fylgjast með flórgoðum snemma á vorin. Þá er sefið lítið sprottið og skyggir minna á og þá eru líkur á að sjá mökunardansa sem eru sérstaklega tilkomumiklir. Karlfuglarnir geta verið árásargjarnir ef þeir girnast sömu kelluna.

Algengt er að sjá flórgoðaunga á baki foreldra sinna. Þannig spara ungarnir orku með því að hvíla sig frá sundinu og fá hlýju frá líkama foreldranna.

Himbrimi

Himbrimi er áberandi á vötnunum á Skaga. Hann er fiskiæta og því er það ótvírætt merki um að fiskur lifi í vatninu ef á því er himbrimi. Aðalfæðan er bleikja en litlir ungar fá sér gjarnan hornsíli! Fuglinn er vel útbúinn til veiða, er góður á kafsundi og goggurinn er með göddum sem gera honum auðveldara að halda sleipum og spriklandi fiski.

Þéttleiki himbrimavarps er mestur á dekkstu svæðunum (NÍ).

Venjulega er bara eitt par himbrima á hverju vatni en á stórum vötnum geta verið fleiri pör. Himbrimi helgar sér sem sé sitt óðal og er illskeyttur gagnvart fuglum sem koma of nærri, t.d. aðrir himbrimar eða endur. Ef gestirnir láta sér ekki segjast og fara, eiga himbrimar það til að kafa undir þá og reka þá á hol með sterkum gogginum.

Meira um himbrima: 

Vaðfuglar í Skógum

(GAG)

Aftur lítum við til Miklavatns, þessa mikilvæga búsvæðis fugla. Austan við það er votlent svæði sem kallast Skógar. Á myndinni má sjá hvernig líffræðingar telja varpfugla á svæðinu. Þeir ganga eftir ákveðnum leiðum með um það bil 100 m millibili og skrá og staðsetja alla fugla sem þeir sjá og eru að sinna varpi. Meðal fugla sem á vegi verða eru spói, lóuþræll, þúfutittlingur, jaðrakan, óðinshani, heiðlóa, hrossagaukur, stelkur, grágæs, ýmsar endur og hettumáfur. Líffræðingar sjá að spói er síður í mikilli bleytu, jaðrakan er við tjarnir, lóuþræll heldur sig þar sem er sendið eða þar sem gulstör vex og þúfutittlingurinn er norðvestan til á svæðinu þar sem er sendið.

(GAG)

Á loftmyndinni sjáum við hvar sáust jaðrakanar í talningu 2003, alls 58 pör!

  • Hvað éta fuglar votlendisins? Veljið að minnsta kosti fimm tegundir. 
  • Líkið eftir aðferðum líffræðinga þegar þið athugið fuglalíf á ákveðnu svæði. 
  • Lesið um vatnafugla og vaðfugla á Fuglavefnum.

Lesa meira um votlendisfugla:

  • Reynir Bjarnason / Stefán Bergmann. 1999. Lífríkið í fersku vatni. Námsgagnastofnun. 
  • Sólrún Harðardóttir. 2013. Líf á landiMenntamálastofnun.
  • Guðmundur Páll Ólafsson. 2005. Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning. 
  • Jóhann Óli Hilmarsson og Sólrún Harðardóttir (Fróðleikur). 2007/2017. Fuglavefurinn. Menntamálastofnun.

>>> GRÓÐUR >>>