Fuglar við sjó

Í björgum

Fuglabjörg er að finna í Skagafirði og ber þar hæst Drangey. Þar verpa lundi, stuttnefja, langvía, álka, fýll og rita. Í Drangey sjást líka hrafn og fálki. Í Málmey er sömuleiðis talsverður fugl. Víðar eru björg við sjóinn og sums staðar nokkur fugl í þeim t.d. í Þórðarhöfða, Ketubjörgum, í Hegranesi og víðar.

Í töflunni sjáum við fjölda varppara mismunandi fuglategunda í Drangey skv. talningum 2007 og 1985. Auk þess verpa um 40.000 pör lunda í eynni. Í Málmey og Lundey eru líka miklar lundabyggðir og er álitið að í Skagafirði séu samtals um 100.000 varppör.

Þessi hefur fengið gott í gogginn (JÓH).

Ungfuglar (fuglar sem ekki eru kynþroska) halda sig ekki endilega við heimaslóðir heldur þvælast um allt land. Þegar þeir hafa þroskast og fundið sinn varpstað halda þeir sig venjulega við hann það sem eftir er. Stór hluti þeirra lunda sem er veiddur eru ungfuglar. Þeir geta því verið af svæðinu eða lengra að komnir. Lundi er fyrst og fremst veiddur norðanlands.

Fuglar í björgum

  • Lesið frétt um pysjur og sævestlu. Um hvað er fréttin?
  • Á veturna fer lundinn út á haf. Skoðið nánar hvert fuglarnir fara með því að kynna ykkur gögn frá staðsetningartækjum sem sett voru á nokkra fugla. Vísað er á norska vefsíðu en þar eru upplýsingar um lunda frá Grímsey og Papey. Á síðunni getið þið einnig kynnt ykkur ferðir annarra fugla. Kallið eftir upplýsingum með því að stilla atriði í vinstri dálki. Skoða norsku vefsíðuna.
  • Skoðið myndir og kynnið ykkur fuglana sem lifa í Drangey. Þið getið skoðað fuglabækur eða farið á Fuglavefinn. Á Sauðárkróki er sýning þar sem útgangspunkturinn er lundinn. Þar má meðal annars skoða Drangey með sérstökum gleraugum þannig að þú getur horft allt í kringum þig (360°). Sýningin er á Aðalgötu 24.
  • Hvaða fuglum hefur fjölgað og hverjum hefur fækkað á árunum frá 1985-2007 skv. töflunni hér að ofan?
  • Hafið augun opin fyrir fuglum í klettum við ströndina í Skagafirði. Sjáið þið fýl? Sjáið þið ritu? Sjáið þið enn aðrar tegundir?

Fuglar í fjöru

Algengt er að farfuglarnir haldi sig í fjöru þegar þeir koma til landsins til að hvílast og safna orku áður en þeir halda til varpstöðvanna. Þetta gera þeir líka á haustin áður en þeir fljúga á vetrarstöðvarnar. Að vori og hausti er því sérstaklega mikið fuglalíf í næringarríkum fjörum og þangað koma líka umferðarfarfuglar.

Sumar tegundir fugla halda sig allan tímann í eða nálægt fjörunni. Varpstöðvar þeirra eru við sjávarsíðuna. Það á til dæmis við stóran hluta sandlóa, en á myndinni er einmitt glænýr sandlóuungi.

Sandlóuungi (JÓH).

Sandlóa er vaðfugl. Fæturnir bera þess merki frá fyrsta degi. Margar tegundir vaðfugla sjást í fjöru. Þeirra stærstur er tjaldur. Gaman er að fylgjast með ólíku atferli fuglanna í kíki. Þeir beita mismunandi aðferðum við að finna æti, halda sig sumir í hópum og svo er sérlega áhugavert að fylgjast með atferli sem tengist mökun, varpi og ungauppeldi.

Máfar

Við sjóinn sjáum við gjarnan máfa. Þið gætuð séð:

  • hettumáf sem er lítill máfur með hettu á hausnum!
  • ritu sem er lítill máfur með gult nef, gráa vængi og svarta vængbrodda.
  • svartbak sem er með svart bak og vængi, er stór og myndarlegur mjög.
  • sílamáf sem er meðalstór með dökkgrátt bak og vængi og gula fætur. Hann minnir á svartbak en er mun minni.
  • silfurmáf sem er frekar stór með gult nef, bleika fætur og grátt bak (eða kannski silfrað) og svarta vængbrodda.
  • stormmáf sem er líkur silfurmáfi en lítill. Ólíkt silfurmáfi er hann með gula fætur.

Takið eftir að stærri máfarnir eru með krók á gogginum.

Mörgum finnst erfitt að greina unga máffugla til tegundar. Það tekur þá nokkur ár að komast í fullorðinsbúning. Skoðið aftur myndirnar á fuglavefnum af svartbak með þetta í huga.

Kría

Sumir rugla saman hettumáfi og kríu. Þið látið það nú ekki koma fyrir ykkur! Kría er mun minni og rennilegri. Svo er hún alls ekki með hettu heldur miklu frekar pottlu. Stélið er líka allt öðruvísi. Skoða kríu á Fuglavefnum.

Kríuungi (SH).

Í Skagafirði eru nokkur kríuvörp og eru þau öll við sjó eða vötn. Kría verpir þétt. Síli og smáfiskur er eftirsótt fæða kríunnar. Hún er góður granni um varptímann því hún ver varplandið af hörku. Þannig er t.d. algengt að sjá hettumáfa á hreiðri innan um kríurnar. Fólk og skepnur sem voga sér of nálægt verða oft fyrir árásum!

Kría kemur seint til landsins miðað við aðra farfugla. Farflug kríunnar er eitt lengsta far sem þekkist meðal dýra. Vetrarstöðvar hennar eru á Suðurskautslandinu.

Lesa meira um kríu:
Um ferðir kríunnar – Vísindavefurinn

Fugl mánaðarins á vef Náttúruminjasafns Íslands

Æðarfugl

Gamalt hreiður æðarfugls (SH).

Æðarfugl er algengur fugl á Íslandi. Skagafjörður fær sinn skerf. Víða er hlúð að æðarvarpi. Þá eru útbúin hreiðurstæði sem veita skjól og eins er stuggað við óvinum æðarfuglsins s.s. ránfuglum, ref og mink. Með þessu hæna landeigendur æðin að. Á móti fá þeir æðadún sem kollurnar reyta af sér til að halda eggjum og ungum heitum. Til að fá eitt kíló af dúni þarf að safna dún úr um sextíu hreiðrum.

Æðurin er mjög tengd sjónum. Fuglarnir koma upp á land til að verpa og eru einnig við land þegar þeir fella fjaðrir. Fæða þeirra er fyrst og fremst úr sjónum, svo sem skeldýr (einkum kræklingur), sniglar, marflær, krossfiskar og hrogn.

Æðarfuglar eru félagslyndir. Þeir verpa þétt og úti á sjó mynda þeir mjög stóra hópa eða eins konar fleka.

Æður er kvenkynsnafnorð og beygist svona. Karlfuglinn er nefndur bliki en kvenfuglinn æðarkolla.

Lesa meira um æðarfugl:

Fuglinn í fjörunni

  • Skoðið fugla í fjöru og fylgist með hvað þeir eru að gera.
  • Greinið fugla sem þið sjáið í fjörunni til tegundar.
  • Berið saman hettumáf og kríu og gerið ykkur grein fyrir mismuninum.
  • Farið vel yfir þær tegundir máfa sem hér eru nefndar og reynið að leggja á minnið hver er hvað.
  • Hvað er máfager? Hafið þið séð máfager í Skagafirði? Lýsið aðstæðum.
  • Fylgist með kríu veiða síli og lýsið því hvernig hún fer að.
  • Fólk sem þarf oft að fara um kríuvarp kemur sér gjarnan upp búnaði til að verjast því að kríurnar goggi í hausinn á því. Íhugið góðar leiðir í þessum tilgangi.
  • Skoðið myndband af æðarfugli á vefnum Fjaran og hafið.
  • Í Skagafirði er á allmörgum stöðum hugsað um æðarvarp. Þekkið þið til einhverra þeirra? Hvernig eru aðstæðurnar? Segið skólasystkinum ykkar frá.

>>> GRÓÐUR HAFSINS OG HRYGGLEYSINGJAR >>>