Skagafjörður er auðugur af jarðhita. Heita vatnið í jörðinni á uppruna sinn sem úrkoma sem hefur náð að seytla djúpt ofan í jörðina í gegnum gljúp berglög eða sprungur. Bergið hitnar eftir því sem neðar dregur og sömuleiðis vatnið sem þangað kemst.
Jarðhitasvæði í Skagafirði eru lághitasvæði sem þýðir að hitinn er innan við 150°C á 1000 m dýpi. Á lághitasvæðum er hægt að nýta vatnið beint úr borholunum. Mestur jarðhiti í Skagafirði er á Steinstöðum og Reykjum í Tungusveit og á Reykjarhóli við Varmahlíð.
Jarðhitasvæði eru samkvæmt hefð flokkuð í tvennt. Á lághitasvæðum er hitinn innan við 150°C á 1000 m dýpi. Á háhitasvæðum fer hitinn gjarnan yfir 200°C á 1000 m dýpi. Gjósandi hverir eru einungis á háhitasvæðum.
Á myndinni hér til hliðar má sjá hvar helst er að finna jarðhita á Íslandi. Einnig skal bent á að gagnagrunnur Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna geymir margs konar nákvæmari gögn, t.d. um jarðhita, sem hægt er að skoða í gegnum Orkuvefsjá.
Heitt vatn er léttara en kalt vatn og leitar því aftur upp þegar það hefur hitnað niðri í jarðlögunum. Sums staðar kemur vatnið upp í heitum laugum. Annars er jarðhitinn ekki alltaf áberandi og heita vatnið kemur ekki endilega alla leið upp á yfirborðið. Merki um það eru blettir í túnum þar sem illa festir snjó og eru sérlega gróskumiklir á sumrin. Margar borholur eru í Skagafirði.
Skagfirðingar nota jarðhita til húshitunar. Einnig er heita vatnið nýtt til að hita gróðurhús, í sundlaugar, til fiskeldis og fleira. Á nokkrum stöðum eru heitar laugar úti í náttúrunni.
Tengt efni: smádýralíf í heitum lindum.
Um jarðhita
- Hvernig er skólinn ykkar hitaður? Ef hann er hitaður með heitu vatni, hvaðan kemur þá vatnið? Ef hitað er með vatni heima hjá ykkur, hvaðan kemur það vatn?
- Lýsið hvernig er umhorfs á stað þar sem heitt vatn er sótt í jörð.
- Hvar í Skagafirði eru gróðurhús, sundlaugar og fiskeldisstöðvar? Er heitt vatn á sömu slóðum?
- Hvers vegna ætli sé meira um jarðhita á Íslandi en í mörgum öðrum löndum?