Alaskalúpína er ágeng tegund eins og sagt er frá á vefnum. Margir hafa áhyggjur af útbreiðslu lúpínu á Íslandi og talsverðar rannsóknir eru gerðar á henni. Út er komin fróðleg skýrsla hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem fjallar um langtímaáhrif alaskalúpínu á gróður og jarðveg á Íslandi. Þar kemur meðal annars fram að áhrifin séu einsleitari sunnanlands en norðan þar sem framvinda er misjöfn eftir aðstæðum.
„Á Norðurlandi mátti greina þrjú afbrigði framvindu í lúpínubreiðum sem tengdust úrkomu og jarðvegsgerð. Í fyrsta lagi framvindu í átt til graslendis lík þeirri á Suðurlandi. […] Í öðru lagi framvindu í átt til tegundaríks mólendis á þurrum melum og í skriðum þar sem vaxtarskilyrði fyrir lúpínu voru erfið vegna lítillar úrkomu. […] Í þriðja lagi framvindu í átt til fábreytts, elftingarríks lúpínulands með tvíkímblaða blómjurtum, á svæðum þar sem lúpína breiddist yfir lyngmóa með gömlum moldarjarðvegi.“
Ekki komu fram jafn skýr merki um hörfun lúpínunnar norðanlands og sunnan.
Talað er um stærstu flæmin sem lúpína eigi eftir að breiðast um séu sandar og aurar sunnan jökla og mólendissvæði á Norðurlandi.