Vor eða sumar!

Þessa dagana eru farfuglarnir að koma. Helsingjarnir eru til dæmis áberandi og eru hér í stórum hópum. Oft er talað um farfugla sem vorboða, þeir segja okkur að vorið sé að koma.

Hvað er vor og hvað er sumar? Í ár (2019) er sumardagurinn fyrsti 25. apríl. Er þá vorið liðið og sumarið tekið við?!

  • Ræðið merkingu orðanna vor og sumar.
  • Hvaða fugla hafið þið séð undanfarið, sem ekki voru hér í vetur?
  • Við sjáum víða merki vorsins. Nefnið dæmi og takið myndir! Þið megið gjarnan senda inn myndir í samvinnu við kennara ykkar – kannski birtast þær hér fyrir neðan (solrun@holar.is).
Snjórinn lætur smám saman undan geislum sólar… (SSk)

Landslag er mikils virði

Nýlega var samþykkt að Íslendingar gerðust aðilar að Landslagssamningi Evrópu.  Samningnum er ætlað að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags ásamt því að koma á fót evrópsku samstarfi um landslag. Með þessu er viðurkennt mikilvægi landslags í umhverfi landsins. Jafnframt verður mótuð stefna sem miðar að verndun, nýtingu og skipulagi þess.

Landslag er sameiginlegur náttúru- og menningararfur hverrar þjóðar og um leið uppspretta margvíslegra gæða sem hafa áhrif á líðan okkar sem einstaklinga og sem samfélag.

Íhugið orðið landslag. Hvernig er það hugsað?

Horfið í kringum ykkur. Sjáið þið landslag?
Hvernig getur landslag haft áhrif á hvernig okkur líður?

Hvað ætli orðið menningarlandslag þýði?

Bann við einnota burðarpokum úr plasti

Liður í því að ganga vel um umhverfi sitt er að ganga vel um sorpið sitt og gera allt til þess að draga úr magni sorps. Plast hefur fengið sérstaka athygli þar sem það brotnar mjög hægt niður og er slæmt fyrir lífríkið.

Nú á að fara að banna burðarpoka, en sumir segjast kaupa burðarpoka til að hafa undir ruslið!!

Í stað þess að nota plastburðarpoka fyrir ruslið getum við sem dæmi notað poka sem til falla á heimilinu: Poka undan brauði, kartöflum, morgunkorni, … hverju sem er. Maður finnur alltaf eitthvað!

Eftir því sem við flokkum meira frá af plasti, pappír, málmi, gleri, því sem er lífrænt o.s.frv. því minna fellur til af blönduðum úrgangi. Þörfin fyrir plastburðarpoka undir ruslið hverfur.

Umhverfisráðherra, sem vel að merkja stundaði sumarvinnu í Skagafirði á námsárum sínum, mælti fyrir frumvarpi á Alþingi um bann við notkun burðarplastpoka.

Spurt og svarað um bann við burðarplastpokum á vef ráðuneytisins. 

Ruslagámur á ferð!?

Jólin eru ekki búin og enn má hugsa um jólasveinana. Stundum er talað um að þeir séu einn og átta, aðrir segja þá þrettán. Líklega eru þeir mun fleiri bræðurnir og ekki má gleyma systrunum til dæmis henni Leiðindaskjóðu.

Jólasveinninn Ruslagámur var fremur hlédrægur áður fyrr en er nú farinn að láta til sín taka. Vonandi sést hann ekki mikið í Skagafirði. Eitthvað er óljóst hvenær hann kemur og hvenær hann fer, en ljóst er að hann gæti víða haft úr miklu að moða allan ársins hring.

Kristján Eiríksson íslenskufræðingur og Skagfirðingur, „rifjaði upp“ þessar vísur um Ruslagám, sem hann kvaðst hafa heyrt…

Fjórtándi er Ruslagámur
rosalega stór,
og maginn hans svo víður
sem veraldar sjór.

Best finnst honum eitur
og alls konar slor.
Þá kætist hann og stígur
sín kolefnisspor.

Reynið að sjá fyrir ykkur sveininn ógurlega og teiknið af honum mynd!

Hvers konar spor er kolefnisspor?

Randver geithafur og vinur hans Tími!

Á bænum Hofi á Höfðaströnd er hrossaræktarbú. Þar eru þó önnur dýr en hross og hefur geithafurinn Randver ratað í fréttirnar vegna þess að hann og hesturinn Tími eru miklir vinir.

  • Lesið fréttina!
  • Hér á vefnum um náttúru Skagafjarðar er talað um mikilvægi þess að fara vel með dýrin, að hugsa um velferð þeirra.
    Hvers vegna fékk Randver að vera í hesthúsinu?
  • Hvernig birtist vináttan?
  • Hafið þið upplifað vináttu dýra? 

Rannsóknir á lúpínu

Alaskalúpína er ágeng tegund eins og sagt er frá á vefnum. Margir hafa áhyggjur af útbreiðslu lúpínu á Íslandi og talsverðar rannsóknir eru gerðar á henni. Út er komin fróðleg skýrsla hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem fjallar um langtímaáhrif alaskalúpínu á gróður og jarðveg á Íslandi. Þar kemur meðal annars fram að áhrifin séu einsleitari sunnanlands en norðan þar sem framvinda er misjöfn eftir aðstæðum.

„Á Norðurlandi mátti greina þrjú afbrigði framvindu í lúpínubreiðum sem tengdust úrkomu og jarðvegsgerð. Í fyrsta lagi framvindu í átt til graslendis lík þeirri á Suðurlandi. […] Í öðru lagi framvindu í átt til tegundaríks mólendis á þurrum melum og í skriðum þar sem vaxtarskilyrði fyrir lúpínu voru erfið vegna lítillar úrkomu. […] Í þriðja lagi framvindu í átt til fábreytts, elftingarríks lúpínulands með tvíkímblaða blómjurtum, á svæðum þar sem lúpína breiddist yfir lyngmóa með gömlum moldarjarðvegi.“

Ekki komu fram jafn skýr merki um hörfun lúpínunnar norðanlands og sunnan.

Talað er um stærstu flæmin sem lúpína eigi eftir að breiðast um séu sandar og aurar sunnan jökla og mólendissvæði á Norðurlandi.

Lesa meira á vef Náttúrufræðistofnunar.

Páfuglafiðrildi með skipi til Sauðárkróks

Það þvælast stundum skrautleg fiðrildi til Íslands. Oftast eru það sterkir suðlægir vindar sem bera þau hingað. Algengast er að sjá þau suðaustanlands. Páfuglafiðrildi fannst á dögunum á Sauðárkróki. Slík fiðrildi eru meðal annars algeng á meginlandi Evrópu. Fiðrildið kom þó ekki svífandi heldur siglandi með skipi frá Rotterdam til Sauðárkróks!

Lesa fréttina